Lífið

Meðaljóninn Tom Hanks

Ferill Tom Hanks siglir lygnan sjó um þessar mundir; myndir hans þykja hvorki góðar né alslæmar. Nýjasta mynd hans, Larry Crowne, verður frumsýnd um helgina.
Ferill Tom Hanks siglir lygnan sjó um þessar mundir; myndir hans þykja hvorki góðar né alslæmar. Nýjasta mynd hans, Larry Crowne, verður frumsýnd um helgina. nordicphotos/Getty
Tom Hanks hefur tekist að halda sig í nágrenni við toppinn í Hollywood þrátt fyrir að þykja hvorki töff né kynþokkafullur. Og ferillinn spannar fjölbreyttari svið en hjá mörgum öðrum.

Leikarar í Hollywood festast oft í svipuðum rullum; sumir verða grínleikarar, aðrir sjá um hasarinn, einhverjir þykja bestir í dramatíkina og svo eru það þeir sem fá að kyssa fallegustu stelpuna í rómantísku myndunum. Tom Hanks er hins vegar einn örfárra sem tekist hefur að halda sig utan hefðbundinnar hlutverkaskiptingar í Hollywood.

Nýjasta mynd Hanks heitir Larry Crowne og verður frumsýnd um helgina. Þar leikur hann afgreiðslumann sem gengur menntaveginn eftir að hafa verið sagt upp störfum. Meðal annarra leikara í myndinni má nefna Juliu Roberts en Hanks skrifar sjálfur handritið ásamt Niu Vardalos og leikstýrir. Myndin hefur fengið sæmilega dóma; fær 6 á imdb.com en aðeins 35 prósent gagnrýnenda hafa verið jákvæð í hennar garð samkvæmt vefsíðunni rottentomatoes.com.

Fátt benti til þess að leikarinn yrði maðurinn sem léki eftir magnað afrek Spencers Tracey – að hreppa Óskarinn tvö ár í röð – þegar fyrstu myndir Hanks eru skoðaðar. Hann hefur yfirbragð hins venjulega manns, er enginn sykurpúði með tónaða magavöðva né sérvitringslegur á svipinn heldur bara venjulegur meðaljón. Framan af ferlinum var Hanks fastur í galsafengnum gamanmyndum, grínskotnum löggumyndum og skondnum ástarsögum á borð við Splash, Dragnet og Turner & Hooch (hann var reyndar tilnefndur til Óskarverðlauna fyrir leik sinn í Big árið 1989). En 1993 náði Hanks almennilegri fótfestu sem „alvarlegri“ leikari þegar hann lék á móti Meg Ryan í Sleepless in Seattle. Myndin fékk góða dóma og mikla aðsókn og Hanks hefur eflaust fengið ótal gylliboð um að leika í svipuðum myndum því Hollywood dýrkar jú að mjólka gullkálfana sína.

Leikarinn tók hins vegar þá djörfu ákvörðun að leika næst alnæmissmitaða hommann Andrew Beckett í Philadelphia og fékk Óskarinn fyrir. Og þegar kom að því að afhenda styttuna árið eftir var Tom Hanks enn og aftur sigurvegari; nú fyrir leik sinn sem hinn greindarskerti Forrest Gump. Á árunum 1994 til 2001 var Hanks tilnefndur fjórum sinnum til Óskarsverðlauna. Sannkölluð gósentíð fyrir manninn sem eitt sinn mátti sætta sig við hlutverk í myndum á borð við Bachelor Party og Joe Versus the Volcano.

Hanks hefur ekki verið jafn fyrirferðarmikill á stóra sviðinu og hann var, það væri jafnvel hægt að fullyrða að Hanks sigldi lygnan sjó um þessar mundir; myndir hans eru svona hvorki né.

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.