Lífið

Blása nýju lífi í Gamla bíó

Systkinin Signý og Óskar Eiríksbörn hlakka til að opna Gamla bíó á ný.
Systkinin Signý og Óskar Eiríksbörn hlakka til að opna Gamla bíó á ný. Fréttablaðið/valli
Tvö leikverk verða frumsýnd á fjölum Gamla bíós í haust. Fræg íbúð á efstu hæð hússins verður til leigu undir listasýningar og móttökur.

„Við röltum oft framhjá þessu virðulega húsi og veltum fyrir okkur hvað yrði um það. Við sóttum um að fá það leigt og erum hæstánægð með að opna það að nýju,“ segir Signý Eiríksdóttir verkefnastjóri Leikhúsmógulsins.

Signý ætlar, ásamt bróður sínum Óskari Eiríkssyni, framkvæmdastjóra Leikhúsmógúlsins, að blása nýju lífi í gamla húsnæði Íslensku óperunnar við Ingólfsstræti eða Gamla bíó.

„Íslensku óperunni var mikið í mun að það yrði áfram menningartengd starfsemi í húsinu. Við erum smám saman að komast í gang og ráða fólk,“ segir Signý og bætir við að húsið sjálft hafi útgeislun sem er engri lík. „Það er eitthvað alveg sérstakt við það að vera í Gamla bíói, saga hússins og hvernig það hefur verið varðveitt gefur því glæsibrag sem einfaldlega er ekki til annars staðar á landinu.“

Leikhúsmógúllinn er fyrirtæki sem einbeitir sér að framleiðslu og uppsetningu leiksýninga út um allan heim. Fyrirtækið var stofnað árið 2000 á Íslandi en er nú með útibú í Þýskalandi, Sviss og Bandaríkjunum.

„Rekstur Gamla bíós er mikilvægur en aðeins hluti af starfsemi okkar. Húsið verður fyrst og fremst notað sem leikhús en það verða aðrir viðburðir í húsinu í vetur svo sem tónleikar, danssýningar og ýmiss konar listviðburðir,“ segir Óskar.

Tvö leikverk verða frumsýnd í Gamla bíó í haust, „Sexy Laundry“ í leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur og glænýr íslenskur gamansöngleikur byggður á hljómplötu Hrekkjusvínanna „Lög unga fólksins“ frá 1977.

Á efstu hæð Gamla bíós er íbúð en þar er að finna einar stærstu svalir Reykjavíkur með útsýni yfir alla borgina. „Íbúðin á efstu hæð verður notuð í tengslum við leiksýningar og æfingar fyrst um sinn en hugmyndin er að það verði hægt að leigja hana undir móttökur, listasýningar og fleira seinna í vetur. Ætlunin er líka að opna húsið meira fyrir almenningi og jafnvel koma fyrir borðum og stólum í anddyrinu þar sem fólk getur komið við, fengið kaffi og spjallað.“

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.