Lífið

50 bönd til viðbótar á Airwaves

Skoska rokksveitin The Twilight Sad er meðal þeirra hljómsveita sem boðað hafa komu sína á Iceland Airwaves-hátíðina í október. Tilkynnt var um 50 listamenn og hljómsveitir í gær.
Skoska rokksveitin The Twilight Sad er meðal þeirra hljómsveita sem boðað hafa komu sína á Iceland Airwaves-hátíðina í október. Tilkynnt var um 50 listamenn og hljómsveitir í gær. Nordicphotos/Getty
Skipuleggjendur tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves tilkynntu í gær um fimmtíu listamenn sem bæst hafa við dagskrá hátíðarinnar í ár.

Meðal þeirra íslenskra listamanna og hljómsveita sem nú bætast í hópinn má nefna Hjaltalín, Lay Low, Saktmóðig, Stafrænan Hákon, Ham, Reykjavík!, Prinspóló, Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar, Árstíðir, Láru og Jóhann Jóhannsson.

Af erlendum listamönnum sem boðað hafa komu sína má nefna finnsku hljómsveitina 22-Pistepirkko, skosku rokkarana í The Twilight Sad, hljómsveitirnar Rich Aucoin og Esmerine frá Kanada og Veronice Falls frá Bretlandi.

Lista yfir allar hljómsveitirnar og listamennina má finna á heimasíðu hátíðarinnar, icelandairwaves.is. Lokadagskrá Airwaves verður kynnt um miðjan september en hátíðin fer fram 12.-16. október.

Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir að aðeins séu nokkur hundruð miðar eftir á hátíðina í ár. Yfir 60 prósent miða sem selst hafa eru til erlendra gesta og verða þeir fleiri en nokkru sinni en fyrr. Sala á miðum er fjórföld í ár miðað við sama tíma í fyrra.

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sagði í samtali við Fréttablaðið að Listasafnið í Reykjavík, Hafnarhúsið, yrði eftir sem áður meðal tónleikastaða á Airwaves. Áður hafði því verið lýst yfir að með tilkomu Hörpu væri ekki þörf á Hafnarhúsinu. Grímur segir að Björk Guðmundsdóttir leggi undir sig tónleikasalinn Silfurberg í Hörpu í heilan mánuð og því sé aftur þörf á stórum tónleikastað. Minni salirnir í Hörpu nýtist þó vel, til dæmis fyrir lágstemmda tónleika, og auki fjölbreytni hátíðarinnar.

- hdm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.