Lífið

Vekur athygli vestanhafs

Ása Helga Hjörleifsdóttir er við meistaranám í kvikmyndagerð við Columbia-háskólann í New York. Hún þykir mikið efni og hefur nælt sér í umboðsmann vestanhafs.
Ása Helga Hjörleifsdóttir er við meistaranám í kvikmyndagerð við Columbia-háskólann í New York. Hún þykir mikið efni og hefur nælt sér í umboðsmann vestanhafs. Fréttablaðið/Valli
„Það er búið að ganga vel og ég er að finna mig í faginu,“ segir Ása Helga Hjörleifsdóttir, meistaranemi í kvikmyndagerð við Columbia-háskólann í New York.

Ása Helga er stödd hér á landi til að taka upp útskriftarverkefnið sitt við skólann, en hún hefur vakið eftirtekt fyrir góða handritasmíð. Reyndar svo mikla að Ása Helga er komin með umboðsmann, en það þykir vel af sér vikið og sérstaklega þar sem hún á ennþá eitt ár eftir í skólanum.

„Símtalið frá umboðsmanninum kom mér mikið á óvart,“ segir Ása Helga, en umboðsmaðurinn komst í kynni við verk hennar í gegnum leikkonuna sem leikur aðalhlutverkið í útskriftarverkefninu hennar, Katherine Waterston.

Waterston er upprennandi stjarna í bransanum og mikill fengur fyrir útskriftarmyndina hennar Ásu Helgu, sem nefnist Ástarsaga. Katherine er dóttir Sam Waterston, sem leikur Jack McCoy í Law & Order. Næstu verkefni Katherine Waterston eru myndirnar Another Bullshit Night in Suck City, sem skartar Robert De Niro og Julianne Moore í aðalhlutverkum, og The Stare, með James Franco og Winonu Ryder.

„Hún er frábær leikkona og stóðst allar væntingar og vel það. Umboðsmaðurinn las handritið mitt hjá henni og hreifst af því. Fyrst þegar ég sá að hann var að reyna að ná í mig var ég viss um að hann væri að fara að kvarta yfir lágu kaupi leikkonunnar. Það var því mjög ánægjulegt þegar hann kom með þessar gleðifregnir,“ segir Ása Helga ánægð, en hlutverk umboðsmannsins er að koma henni inn í bransann vestanhafs og koma verkum hennar í réttar hendur.

Ása Helga heldur af landi brott í dag til að leggja lokahönd á útskriftarverkefnið sitt og hefja lokaár sitt í skólanum.

-áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.