Lífið

Læti á lokasprettinum í Reykjavík Runway

Allt á fullu fyrir lokakvöld Reykjavík Runway, að sögn Ingibjargar Grétu Gísladóttur, framkvæmdastjóra keppninnar.
Allt á fullu fyrir lokakvöld Reykjavík Runway, að sögn Ingibjargar Grétu Gísladóttur, framkvæmdastjóra keppninnar. Fréttablaðið/vilhelm
„Hér er allt á fullu og mikill hamagangur að ganga frá síðustu smáatriðum fyrir úrslitin,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri keppninnar Reykjavik Runway, en úrslitakvöldið er á fimmtudaginn.

Reykjavík Runway er fyrirtæki sem vinnur að því að koma íslenskum fatahönnuðum á markað hér heima sem erlendis. Í sumar fór fyrirtækið af stað með fatahönnunarkeppni þar sem fjögur íslensk merki, Ziska, Rosa – Bryndís, EYGLÓ og Shadow Creatures, keppa um að eiga bestu sumarlínuna 2012.

Úrslitakvöldið verður haldið í Hafnarhúsinu þar sem ofangreindir hönnuðir sýna afrakstur vinnu sinnar í sumar og dómnefnd frá Fatahönnunarfélagi Íslands velur sigurvegarann. Verðlaunin eru meðal annars hálf milljón í peningum og að feta í fótspor Karls Lagerfeld og Manolo Blahnik með því að hanna útlit á Coke Light flösku.

„Ég fór um helgina og heimsótti stúlkurnar, tók stöðuna og faðmaði þær allar. Núna er allt á suðupunkti og margt sem hefur verið að koma upp á síðustu daga,“ segir Ingibjörg en til dæmis sátu flíkurnar frá hönnunarteyminu Rosa – Bryndís fastar í tollinum á föstudaginn. „Það skapaðist smá stressástand því stúlkurnar voru búnar að skipuleggja myndatöku um helgina. Sem betur fer redduðu þær þessu á endanum.“

Harpa Einarsdóttir sem hannar undir merkinu Ziska og Eygló Lárusdóttir lentu líka í vandræðum með að fá efnin sín til landsins. „Harpa fékk efnin á föstudaginn og er búin að sitja sveitt við að sauma alla helgina. Eygló er hins vegar að vonast eftir að fá sín í dag,“ segir Ingibjörg og bætir við að allt starfsfólk Reykjavík Runway og keppendur séu reynslunni ríkari eftir sumarið.

Það eru allir velkomnir á úrslitakvöldið, á meðan húsrúm leyfir, Keppnin hefst klukkan 20.20.

- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.