Lífið

Mikil samkeppni hjá sportpöbbunum

Nýir sportbarir Hallur Dan Johansen á Úrillu górillunni og Davíð Kristinsson á Glaumbar fagna nýju tímabili í enska boltanum. Fréttablaðið/HAG
Nýir sportbarir Hallur Dan Johansen á Úrillu górillunni og Davíð Kristinsson á Glaumbar fagna nýju tímabili í enska boltanum. Fréttablaðið/HAG
„Fyrsta helgin gekk bara stórvel. Það var ótrúlega jákvæð stemning yfir öllu,“ segir Davíð Kristinsson, rekstrarstjóri á Glaumbar við Tryggagötu.

Keppni í Ensku úrvalsdeildinni hófst um helgina. Það þýðir að aftur lifnar yfir fjölda sportpöbba á höfuðborgarsvæðinu en það getur gefið vel í aðra hönd að reka vinsælan sportpöbb. Glaumbar var opnaður að nýju um helgina og keppir við nokkra aðra sportbari í miðbænum. Má þar nefna staði eins og English Pub, Hvítu perluna og Bjarna Fel.

„Já, sportbörunum hefur fjölgað mikið hér á landi,“ segir Davíð. „Samkeppnin heldur manni bara á tánum. Það er plús bæði fyrir mig og kúnnann.“ Hann segir það jafnframt ánægjulegt að staðirnir séu mun flottari en áður. „Standardinn hefur batnað til muna á minni börunum,“ segir hann.

Davíð segir það jákvætt hversu mikið sé af sportbörum í úthverfunum. „Það gengur auðvitað ekkert ef þú býrð í Grafarholti að þurfa alltaf að fara niður í bæ.“

Önnur viðbót í flóru sportpöbba er Úrilla górillan sem opnuð var á Stórhöfða um helgina. Þar ræður ríkjum Hallur Dan Johansen sem rak áður Austur og Players. Staðurinn verður heimavöllur Liverpool-klúbbsins og geta gestir fengið bás með sér bjórdælu. Mikið virðist lagt í útlit staðarins. „Ef Kex, Laundromat og Players myndu eignast barn, þá værum við barnið,“ segir Hallur Dan. -hdm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.