Lífið

Spiluðu á sama sviði og Lady Gaga

Stúlkurnar í The Charlies voru ánægðar með tónleikana á skemmtistaðnum Avalon í Hollywood sem laðar að sér fræga gesti.
Stúlkurnar í The Charlies voru ánægðar með tónleikana á skemmtistaðnum Avalon í Hollywood sem laðar að sér fræga gesti.
„Viðbrögðin voru hreint út sagt tryllt og orkan í húsinu var frábær,“ segir Steinunn Camilla, ein af stúlkunum í The Charlies um tónleika þeirra á skemmtistaðnum Avalon í Hollywood á fimmtudagskvöld.

Sveitin, sem einnig er skipuð þeim Klöru og Ölmu, kom fram fyrir 5.000 áhorfendum sem klöppuðu og dönsuðu við tóna sveitarinnar. „Þetta var frábært kvöld í alla staði og fólk hópaðist að okkur til að taka myndir og fá myndir af okkur með sér eftir á,“ segir Steinunn í skýjunum með frábært kvöld.

Tónleikarnir voru haldnir á svokölluðu TigerHeat-kvöldi sem, að sögn Steinunnar, eru mjög fræg. Poppprinsessan Lady Gaga kom fram á sama sviði og The Charlies þegar hún var að stíga upp á stjörnuhimininn árið 2008.

Staðurinn Avalon hefur svo laðað að sér fræga gesti eins og Britney Spears, Sir Elton John og Janet Jacksson, sem öll vöktu athygli fjölmiðla fyrir komu sína þangað. Stúlkurnar komu fram með fimm dansara sér við hlið til að gera sýninguna sem flottasta. Einnig héldu þær uppteknum hætti og hönnuðu og saumuðu búningana sjálfar. „Við gerðum atriðið allt sjálfar, dansana, búningana og meira að segja tókum þátt í að segja hvernig ljósin ættu að vera stillt á sviðinu,“ segir Steinunn og bætir við að hún hafi gert átta mínútna myndbandsverk sem rúllaði undir tónlistaratriðunum.

„Það voru bara svona myndbandsklippur sem ég setti saman og tengdi við lögin. Ég stefni á að stytta það aðeins og setja svo á You Tube svo allir geti séð,“ segir Steinunn. Brjálað er að gera hjá stelpunum sem komast ekki heim fyrr en um jólin í fyrsta lagi. „Við erum á fullu alla daga og alltaf uppi í stúdíói.“

- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.