Lífið

Verður áfram tískutímarit

Þóra Tómasdóttir boðar breyttar áherslur á Nýju lífi en lofar þó að sinna áfram tískufrömuðum.
Þóra Tómasdóttir boðar breyttar áherslur á Nýju lífi en lofar þó að sinna áfram tískufrömuðum. Fréttablaðið/Valli
„Þetta var mjög óvænt og bar skyndilega að,“ segir Þóra Tómasdóttir, nýráðinn ritstjóri tímaritsins Nýs lífs.

Þóra hefur þónokkra reynslu af vinnu við fjölmiðla og hefur meðal annars verið í Kastljósi og nú síðast blaðamaður á Fréttatímanum. Það má því segja að hún sé að söðla um frá alvarlegum umfjöllunum fréttanna yfir í heim glanstímaritanna.

„Ég er þeim hæfileikum gædd að eiga erfitt með að taka sjálfa mig alvarlega. Þetta rímar í raun mjög vel við það sem ég hef verið að fást við hingað til. Ég hef gert bæði bíómynd og bók, og er með útvarpsþátt fyrir og um stelpur. Tímarit fyrir konur er því gott framhald á því,“ segir Þóra, sem boðar breyttar áherslur í tímaritinu sem hingað til hefur einbeitt sér að tísku.

„Ég ætla að gera metnaðarfullt tímarit fyrir konur sem skilur eitthvað eftir sig. Það verða áfram tískuumfjallanir og við höldum áfram að vera á höttunum eftir færasta fólkinu í þeim bransa.“

Þóra tekur við starfinu í lok mánaðarins þegar Kolbrún Pálína Helgadóttir, fráfarandi ritstjóri, hefur skilað af sér sínu síðasta blaði.

„Ég veit ekki alveg hvernig skútan verður mönnuð en vona að ég geti umkringt mig með hópi sem er tilbúinn að leggjast á eitt við að búa til gott blað. Markmið mitt er að veita konum meiri athygli í fjölmiðlum.“- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.