Lífið

Leið eins og ég væri stödd í póstkorti

Lára Rúnarsdóttir söngkona er nýkomin heim eftir tveggja vikna tónleikaferðalag þar sem Sviss heillaði hana upp úr skónum.
Lára Rúnarsdóttir söngkona er nýkomin heim eftir tveggja vikna tónleikaferðalag þar sem Sviss heillaði hana upp úr skónum.
„Þessi ferð fór fram úr öllum mínum björtustu vonum og var frábær í alla staði,“ segir Lára Rúnarsdóttir söngkona, sem er nýlent á Íslandi eftir tveggja vikna tónleikaferðlag um Evrópu.

Tónleikaferðalagið var í raun einnig fjölskyldusumarfríið hjá Láru. Trommari hljómsveitarinnar, Arnar Gíslason, er eiginmaður Láru og því ekki hægt að skilja eftir þriggja ára dóttur þeirra hjóna, Emblu. Systir Láru, Margrét, var síðan tekin með til að passa. Mikil keyrsla var á sveitinni, sem spilaði á tíu tónleikum á tveimur vikum.

„Það heyrðist minnst í Emblu af öllum í ferðinni. Hún er greinilega fædd fyrir flakkið og fannst þetta æðislegt,“ segir Lára, en sveitin leigði rútu og keyrðu svo á milli Þýskalands og Sviss, lands sem heillaði Láru upp úr skónum.

„Í Sviss leið mér eins og ég væri stödd inni í póstkorti. Ég var heilluð af landslaginu og svo var alltaf hreint þarna. Íbúar landsins hljóta að slá grasið einu sinni á dag, þar var svo fullkomið,“ segir Lára, sem stefnir á að fara aftur til Sviss. „Við kynntumst yndislegu fólki sem var mjög hrifið og forvitið um Ísland. Ég gæti vel hugsað mér að fara þangað til að taka upp nýju plötuna mína,“ segir Lára, sem stefnir á að koma með nýja plötu í byrjun næsta árs.

„Mig klæjar í puttana að fara að vinna í nýju efni eftir ferðina. Draumurinn væri að fara út fyrir landssteinana með hljómsveitin, loka okkur af á afskekktu sveitasetri og búa til nýju plötuna þar. Ég þarf bara að finna leið til að fjármagna ferðalagið en ég stefni á að byrja að vinna í plötunni í lok ágúst,“ segir Lára og viðurkennir að það geti verið erfitt að vera í skapandi starfi á Íslandi. „Eins frábært og það er að búa hérna er hraðinn sömuleiðis mikill og maður alltaf með fullt af verkefnum í gangi á sama tíma. Þess vegna væri fínt að komast út og loka sig af.“

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.