Lífið

Betlar peninga á Toronto-hátíð

Friðrik Þór Friðriksson ætlar að betla peninga á kvikmyndahátíðinni í Toronto.
fréttablaðið/stefán
Friðrik Þór Friðriksson ætlar að betla peninga á kvikmyndahátíðinni í Toronto. fréttablaðið/stefán
„Maður verður bara að betla peninga alls staðar núna, því ekki þýðir það á Íslandi,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Friðrik Þór Friðriksson.

Hann er á leiðinni á kvikmyndahátíðina í Toronto í september. Þar fer alþjóðleg fjármögnunarráðstefna fram þar sem framleiðendur leitast við að fjármagna myndir sínar. „Það er búið að skera þessa þjóð niður um 35 prósent og ég sé ekki fram á að geta gert kvikmynd nema með erlendu fjármagni,“ segir Friðrik Þór.

Hann er með fjórar myndir í undirbúningi sem leikstjóri og framleiðandi. Fyrst ber að nefna Hross í leikstjórn Benedikts Erlingssonar, sem reyndar hefur fengið styrk frá Kvikmyndasjóði Íslands.

Hinar eru barnamyndin Leiðtogafundurinn, Lost in Poetry sem fjallar um ítalska leikstjórann Antonioni og loks Bíbí sem er byggð á samnefndri ævisögu eftir Vigdísi Grímsdóttur.

Friðrik Þór hefur frumsýnt flestar myndir sínar í Norður-Ameríku á Toronto-hátíðinni í gegnum árin við góðar undirtektir. Nú síðast Mömmu Gógó og Sólskinsdrenginn en í þetta sinn verður hann ekki með nýja mynd í farteskinu.

Spurður hvort hann ætli einnig á kvikmyndahátíðina í Feneyjum sem verður haldin í september segir leikstjórinn: „Nei, maður fer ekki á mafíuhátíðir, sérstaklega ekki eftir síðasta útspil ríkisstjórnarinnar.“ Þar á hann við stuðning fyrrverandi ráðherra landsins við norska fjöldamorðingjann Breivik.

En hefurðu farið til Feneyja? „Jú, jú. Ég hef verið tvö ár af lífi mínu í flugvél á leiðinni á kvikmyndahátíðir og tíu ár af lífi mínu að hneigja mig.“ Og þú munt væntanlega halda því áfram? „Á meðan bakið leyfir.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.