Lífið

Boðið að farða á tískuvikunni í Kaupmannahöfn

Ísak Freyr Helgason: „Þetta verður mikil aksjón.“
Ísak Freyr Helgason: „Þetta verður mikil aksjón.“ Mynd/Anton Karl
„Þetta er rosaleg viðurkenning fyrir mig,“ segir förðunarfræðingurinn Ísak Freyr Helgason, en honum var boðið að farða fyrir snyrtivörurisann MAC á tískuvikunni í Kaupmannahöfn. Ísak hefur lengi unnið hjá MAC á Íslandi, en hann er einn eftirsóttasti förðunarfræðingur landsins. Ísak var einnig Karli Berndsen innan handar í þættinum Nýtt útlit sem sýndur var á Skjá einum, en þar veittu þeir félagar fólki nýtt útlit, frá förðun til fata.

Ísak verður eini Íslendingurinn í ellefu manna teymi MAC á tískuvikunni í Kaupmannahöfn. En hvernig fékk Ísak þetta tækifæri? „Það eru haldin sex próf af förðunarfræðingum MAC sem koma hingað á þriggja mánaða fresti. Þetta eru svona forpróf sem eru haldin á öllum Norðurlöndunum og ef þú nærð þeim öllum, og þeim finnst þú vera tilbúinn, þá er þér boðið að koma til Danmerkur og taka lokaprófið,“ segir Ísak, en hann rúllaði prófunum upp og var því valinn í teymið. „Við verðum meðal annars að farða fyrir Brun Bazaar, Henrik Vibskov, Peter Jensen og Barbara Gongini. Þetta verður mikil aksjón og mikil keyrsla. Það verða tvær til þrjár sýningar á dag og við verðum hlaupandi á milli,“ segir Ísak, og bætir við að þetta fari allt í reynslubankann.

Ísak heldur út á mánudaginn, en þá fer tískuvikan á fullt. Þegar heim er komið setur hann stefnuna á New York, en þangað fór hann í byrjun árs til þess að kynna sig og vinnu sína. „Ég ætla að halda áfram þar og gera eitthvað skemmtilegt. Ég hugsa að ég verði þar í tvo til þrjá mánuði.“

kristjana@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.