Lífið

Teiknaði útför Amy Winehouse fyrir tveimur árum

Hugleikur Dagsson virðist hafa spádómsgáfu hvað varðar skopmyndir sínar, en hann teiknaði þessa mynd af útför Amy Winehouse fyrir tveimur árum. Hann segist þó ekki vera skyggn heldur trúi hann á tilviljanir.
Hugleikur Dagsson virðist hafa spádómsgáfu hvað varðar skopmyndir sínar, en hann teiknaði þessa mynd af útför Amy Winehouse fyrir tveimur árum. Hann segist þó ekki vera skyggn heldur trúi hann á tilviljanir.
„Það stefndi í þetta,“, segir skopmyndateiknarinn Hugleikur Dagsson, en fyrir tveimur árum teiknaði hann mynd eftir texta lagsins Rehab, sem söngkonan Amy Winehouse gerði frægt, en hún lést á laugardag.

„Það vill svo til að ég geri eitthvað sem verður síðan að veruleika,“ segir Hugleikur, sem telur sig vinnusaman og að það sé ástæða þess að hann hitti stundum á hluti sem rætist.

Ertu þá ekki skyggn?

„Ég er ekki skyggn frekar en Sigríður Klingenberg,“ segir hann. Á myndinni má sjá opna gröf og í íslenskri þýðingu stendur: „Þeir reyndu að fá mig í meðferð en ég sagði nei, nei, nei,“. Amy Winehouse barðist sem kunnugt er við eiturlyfjafíkn síðustu ár og skipti engu hversu oft hún leitaði hjálpar meðferðarstofnana, alltaf snéri hún aftur til fyrra lífernis sem endaði svo á hræðilegan hátt á laugardag.

Þetta er ekki í eina skiptið sem Hugleikur reynist sannspár. Í bókinni „Garðarshólmi“ eftir Hugleik má finna teikningu af rauðu skýi sem dreifðist yfir Evrópu, en skýið átti að tákna göldrótt Eurovision lag frá Íslandi. Hugleikur segir að um leið og Eyjafjallajökull hóf að gjósa, hafi fólk hins vegar bent á að skýið ætti margt líkt með öskuskýi eldgossins. „Einhverntímann skrifaði ég líka leikrit þar sem ein persónan þótti sláandi lík Guðmundi í Byrginu. Við fögnuðum eiginlega hálfpartinn þegar þessi perri kom upp á yfirborðið, því þá varð leikritið allt í einu meira viðeigandi,“ segir Hugleikur og bætir við að hann hafi einnig spáð fyrir ísbjarnardrápunum. Þrátt fyrir þetta segist Hugleikur þó trúa á tilviljanir.

En hefur Hugleikur í hyggju á að setja þessar „tilviljanir“ sínar saman í spádómsrit? „Það gæti vel verið að ég gerði það einhverntímann þegar mér leiðist,“ segir Hugleikur.

kristjana@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.