Lífið

Saga sem verður að heyrast

Lilja Katrín Gunnarsdóttir leikkona og blaðamaður skrifar átakanlega sögu móður í forræðisdeilu milli landa. fréttablaðið/
Lilja Katrín Gunnarsdóttir leikkona og blaðamaður skrifar átakanlega sögu móður í forræðisdeilu milli landa. fréttablaðið/
„Mig dreymdi alltaf um að verða rithöfundur þegar ég var fjögurra ára. Það má því kannski segja að draumurinn sé að rætast,“ segir Lilja Katrín Gunnarsdóttir, leikkona og blaðamaður. Lilja er með bók í bígerð og nýtir hverja lausa stund í sumarfríinu til að skrifa. Bókin er sannsöguleg og fjallar um harða forræðisdeilu íslenskrar móður við bandarískan barnsföður sinn.

Lilja kynntist konunni þegar hún var að vinna sem blaðamaður hjá DV fyrir nokkrum árum og skrifaði um málið. „Að skrifa bók um þetta erfiða ferli var eiginlega sameiginlega ákvörðun okkar beggja. Við vorum sammála um að þessa sögu yrði að segja. Forræðisdeilur í millilandasamböndum eru algengar og fleiri í sömu sporum og hún sem geta nýtt sér þessa reynslu.“

Lilja byrjaði á bókinni árið 2009 og skrifaði þá einn kafla til að prufa. „Ég var ólétt þá og með hormónana í botni þannig að það tók á að fara í gegnum þessa erfiðu sögu. Stundum líður mér eins og ég sé að skrifa spennusögu eða bíómynd. Það var til dæmis alveg rosalegt hvernig hún fór að því að flýja frá Bandaríkjunum og heim,“ segir Lilja og bætir við að hún dáist að þrautseigjunni í konunni.

Málið fékk farsælan endi og er konan nú búsett á Íslandi með börnin sín. Lilja er rúmlega hálfnuð með bókina og stefna þær á að gefa hana út á árinu. „Þetta er saga um móður sem gerir allt fyrir börnin sín og gefst aldrei upp. Þess vegna held ég að allir hafi gott af því að kynnast þessari sögu.“-áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.