Innlent

Landeyjahöfn hugsanlega lokuð í vetur

MYND/Arnþór
Rætt hefur verið um að loka alfarið fyrir siglingar Herjólfs um Landeyjahöfn í nokkra mánuði næsta vetur vegna óvissu um aðstæður. Í maí síðastliðnum var settur á laggirnar samstarfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins, Siglingastofnunar, Vegagerðarinnar, Eimskips og Vestmannaeyjabæjar til að meta aðstæður í höfninni og setja saman aðgerðaáætlun ef til þess kæmi að loka fyrir siglingar um hana næsta vetur.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ítrekar að engar ákvarðanir hafi verið teknar um að loka höfninni yfir veturinn. „Samstarfshópurinn mun miðla upplýsingum sín á milli og veita mér reglulegar upplýsingar með skipulögðum hætti," segir Ögmundur. „Það er ekki svo að málið sé í einhverri upplausn, nema síður sé."

Ráðherra bendir á þær óviðráðanlegu aðstæður sem hafa valdið því að Herjólfur hefur ekki náð að sigla sem skyldi um Landeyjahöfn, en hún var lokuð frá 14. janúar síðastliðnum, til 4. maí. Það gerir um sautján vikur. „Við verðum að greina á milli þess sem við ráðum við og þess sem við ráðum illa við," segir Ögmundur.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er sterkur vilji hjá Eimskipi, sem á og rekur Herjólf, til að loka höfninni um tíma. Verið er að skoða að hafa hana opna fram í desember eða janúar en loka svo í nokkra mánuði og sigla þá frá Þorlákshöfn.

Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskips, staðfestir að lokun hafnarinnar næsta vetur hafi verið rædd.

„Samstarfshópurinn þarf að meta þetta og koma með tillögur," segir hann. „Það er þó enginn búinn að leggja fram beinar tillögur um lokun."

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir það hugsanlegt að Herjólfur geti ekki þjónustað höfnina nema hluta úr ári, eins og komið hefur í ljós frá því að hún opnaði. „En hins vegar liggur það fyrir að Landeyjahöfn verður að þjónusta samfélagið í Vestmannaeyjum í tólf mánuði á ári."

Samkvæmt upplýsingum frá Siglingastofnun hafa framkvæmdir við Landeyjahöfn kostað tæpa fjóra milljarða króna.

- sv, shá / sjá síðu 4



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×