Lífið

Öryggismál sett á oddinn í Eurovision

„Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart er hvað Þjóðverjarnir eru rólegir, þeir eru ekkert yfir sig stífir á reglum," segir Jónatan Garðarsson, fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins.

Hann er að fara í níunda sinn í Eurovision og er því ansi reynslumikill þegar kemur að því að setja saman dagskrá fyrir íslensku keppendurna. Að þessu sinni verða sextán í Eurovision-föruneytinu og því hefur Jónatan í mörg horn að líta. Hann segir einu breytinguna frá fyrri keppnum vera þá að nú sé öllum gert að hlýða á sérstakan öryggisfyrirlestur hjá öryggisfulltrúa þýska sjónvarpsins.

„Þetta hefur aldrei verið sett á dagskrá fyrr en nú. Þetta er eitthvert vöðvatröll sem ég kannast reyndar alveg við en hef aldrei vitað hvað gerði. Núna veit ég það."

Jónatan Garðarsson.
Íslenski hópurinn er kominn með hótel og varð Radisson-hótelið í Düsseldorf fyrir valinu.

„Ég hef reyndar ekki séð hótelið. Danirnir verða þarna og þeir höfðu farið og skoðað það og mæltu með því," útskýrir Jónatan en hótelið er aðeins fyrir utan borgina. „En á móti kemur að við verðum þá aðeins nær flugvellinum og höllinni þannig að vegalengdirnar verða mjög viðráðanlegar."

Það eru Vinir Sjonna sem eru fulltrúar Íslands í Eurovision þetta árið en þeir flytja lagið Coming Home. Þeir stíga á svið í fyrri undankeppninni, þriðjudaginn 10. maí, og eru númer fjórtán í röðinni. -fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.