Lífið

Frjálsleg túlkun á þjóðsögu

Vídeólistamaðurinn Þóra Hilmarsdóttir er í hópi listamanna sem koma að dansverkinu. Fréttablaðið/Stefán
Vídeólistamaðurinn Þóra Hilmarsdóttir er í hópi listamanna sem koma að dansverkinu. Fréttablaðið/Stefán
Nýtt íslenskt dansverk var frumsýnt í Tjarnabíói um helgina. Verkið nefnist Gibbla og er samstarfsverkefni sjö listamanna úr ólíkum listgreinum sem tvinna saman dans, tónlist og kvikmyndagerð í eina samræmda heild.

Innblástur verksins er sóttur til Asks Yggdrasils og örlaganornanna þriggja og fjallar um hvernig örlög manna eru ákveðin við fæðingu og hvernig lífsþræðirnir spinnast. Dansarar og danshöfundar verksins eru þær Guðrún Óskarsdóttir, Inga Maren Rúnarsdóttir og Katla Þórarinsdóttir.

Þóra Hilmarsdóttir vídeólistamaður, skapaði aftur á móti myndverkið sem fléttast inn í sýninguna. Hún útskrifaðist frá hinum virta listaháskóla Central St. Martins í London fyrir rúmu ári. Þóra er enn búsett ytra og starfar hjá kvikmyndafyrirtækinu Ridley Scott Associates.

„Ég hafði unnið með tveimur dansaranna áður en ég fór út í nám og fannst mjög spennandi að fá tækifæri til þess að gera það aftur. Ég fékk frí í vinnunni og kom heim í febrúar og hef unnið að verkinu stanslaust síðan þá,“ útskýrir Þóra. Hluti vídeóverksins var tekinn upp í gömlum læknabústað við Vífilsstaði og viðurkennir Þóra að það hafi tekið svolítið á taugarnar. „Það er nánast eins og einhver hafi bara gengið út úr húsinu einn daginn og skilið allt eftir, þetta var mjög draugalegt. Einu sinni var ég nokkuð viss um að það væri reimt þarna og ákvað að hætta tökum þann daginn,“ segir hún hlæjandi.

Hópurinn nálgast sögu örlaganornanna með nokkuð óhefðbundnum hætti og er nokkuð frjálslegur í túlkun sinni. Mikil vinna hefur farið í framkvæmd verksins enda eru þetta í raun þrjú verk sem steypt er saman í eitt.  Danstvíeykið Steinunn og Brian frumsýndi einnig dansverk sama kvöld og ber það heitið „Steinunn and Brian DO art; How to be Original“.

Allar nánari upplýsingar má finna á tjarnarbio.is. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.