Íslenski boltinn

Gunnleifur skrefi framar en Haraldur og Hannes

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnleifur í leik með Íslandi gegn Portúgal í október í fyrra.
Gunnleifur í leik með Íslandi gegn Portúgal í október í fyrra. Mynd/Vilhelm
Ólafur Jóhannesson segir að það hafi alltaf legið fyrir að hann myndi kalla aftur á Gunnleif Gunnleifsson, markvörð FH, í íslenska landsliðið.

Gunnleifur var ekki valinn í liðið sem mætti Ungverjalandi í vináttulandsleik fyrr í mánuðinum. Í hans stað valdi hann Harald Björnsson, Val, og Hannes Þór Halldórsson, KR.

„Gunnleifur á síðustu metrunum í fótbolta sökum aldurs. Þó svo að hann eigi mögulega nokkur ár eftir sem hann telur vafalaust sjálfur. En aldurinn er svolítið mikill á honum,“ sagði landsliðsþjálfarinn Ólafur Jóhannesson á blaðamannafundi KSÍ í gær.

Þá valdi hann þá Gunnleif og Stefán Loga Magnússon í íslenska landsliðið sem mætir Noregi og Kýpur í byrjun næsta mánaðar.

„Vegna þess var ákveðið að fara með þá markverði sem hafa staðið sig einna best í deildinni hér heima til Ungverjaland - þá Hannes Þór og Harald.“

„En það var aldrei neinn efi í mínum huga um að Gunnleifur kæmi aftur inn í liðið fyrir þessa leiki. Ég tel að Gunnleifur sé enn skrefi framar en þessir báðir - þá sérstaklega reynslunnar vegna. Það kom aldrei annað til greina en að velja hann í hópinn nú.“

Þá vakti einnig athygli að Veigar Páll Gunnarsson var valinn í hópinn nú. Hann leikur með Vålerenga í Noregi en hann var áður á mála hjá Stabæk í mörg ár.

„Hann er fínn fótboltamaður og við erum að fara að spila við Noreg þar sem margir Íslendingar eru að spila. Það gefur mönnum örugglega aukakraft.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×