Innlent

Icesave-viðræður ávallt vingjarnlegar – fréttir um hörku rangar

Icesave-viðræður íslensku sendinefndarinnar undir forystu Svavars Gestssonar og breskra stjórnvalda voru ávallt árangursríkar og vinsamlegar. Frásagnir fjölmiðla um harðar deilur voru ekki á rökum reistar. Þetta segir í minnisblaði sem sendiráð Bandaríkjanna í London sendi utanríkisráðuneytinu í Washington 6. janúar 2010, daginn eftir að Ólafur Ragnar Grímsson synjaði lögum um Icesave-samninginn staðfestingar.

Minnisblaðið birtir mat Breta og Bandaríkjamanna á stöðu mála á þeim tímapunkti. Þeir vonuðust eftir því að íslensk stjórnvöld afstýrðu því að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem það gæti þvælt öll mál tengd viðræðum um aðild Íslands að ESB.

Heimildarmaður bandarískra sendimanna er Gary Roberts, skrifstofustjóri í breska fjármálaráðuneytinu. Roberts sagði Bandaríkjamönnum að erfitt yrði fyrir Breta að leggjast ekki gegn endurskoðun efnahagsáætlunar AGS fyrir Ísland meðan Icesave-deilan væri óleyst. Endurskoðun væri hvort sem er engum í hag í náinni framtíð þar sem þjóðhagsleg áhrif af ákvörðun forseta Íslands væru óljós. Bretar mundu halda til streitu kröfum um að Íslendingar standi við „skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum" og greiða innstæðutryggingar.

Þá sagði Roberts að Bretar vildu ekki tengja Icesave-deiluna umsókn Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu. Þeim væri þó nauðugur einn kostur ef málið kæmi til afgreiðslu í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins áður en samningar tækjust um Icesave.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×