Lífið

Ragnhildur Steinunn treður sér í kaffiboðin

elly@365.is skrifar
Þáttargerðin gengur bara rosa vel. Við erum búin að taka upp alla þættina og sitjum núna sveitt við klippiborðið að vinna úr efninu. Þetta er búið að vera rosalega skemmtilegt ferli því allir einstaklingarnir í þáttunum hafa verið svo opnir og persónulegir. Ég er farin að þekkja alla fjölskyldu þeirra og mér er farið að líða eins og hálfgerðri frænku hvers og eins, treð mér í kaffiboð og svona, segir Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir stjórnandi þáttarins Ísþjóðin sem sýnd er í sjónvarpinu á fimmtudagskvöldum.

Hittir áhugaverða Íslendinga

Í þættinum í kvöld kynnumst við einni bestu frjálsíþróttakonu heims Helgu Margréti Þorsteinsdóttur. Hún er sveitastelpa í húð og hár og einn metnaðarfyllsti einstaklingur sem ég hef á ævi minni kynnst. Hún stefnir á Ólympíugullið í sjöþraut árið 2016 og æfir nú að kappi fyrir það. Ég hefði aldrei trúað því hversu miklar fórnir fylgja því að ná svona langt en Helga Margrét leggur allt undir til þess að ná takmörkum sínum. Ég dáist af henni, segir Ragnhildur.

Fjórir vinnudagar á bak við einn þátt

Það tekur okkur að meðaltali fjóra daga að taka upp hvern þátt. Eiríkur Ingi Böðvarsson pródusent er kominn með áskrift að vöðvabólgu því ég dreg hann út um allar trissur til þess að taka upp á sem flestum stöðum. Maður vill auðvitað reyna að veita áhorfandum sem raunverulegasta sýn í líf viðkomandi, útskýrir hún spurð út í vinnuna á bak við þættina.

Ánægð með viðtökurnar

Í þættinum hennar Helgu Margrétar fórum við til dæmi í Hrútafjörð í sveitina til mömmu hennar og pabba og svo flugum við til Svíþjóðar og fylgdum Helgu eftir þegar hún fór þangað til þess að æfa. Við erum alveg í skýjunum með góðar viðtökur og gott áhorf og vonum svo sannarlega að fólk haldi áfram að horfa, segir Ragnhildur Steinunn áður en kvatt er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.