„Þetta er út í hött," segir eigandinn.
Til stóð að tíkinni yrði lógað í gær. Eigandinn hefur ráðið sér lögmann og fékk aflífuninni frestað um óákveðinn tíma, meðal annars með greiðslu tryggingar. Tíkin dvelur á dýralæknastöð þar til annað kemur í ljós.
„Töluverðar líkur á að hundurinn bíti aftur"
Í bréfi sem héraðsdýralæknir sendi eigandanum í gær segir að hann telji ekkert hafa komið fram sem útiloki að Rottweilertíkin geti aftur bitið mann. „Einhver tiltekin framtíðarþjálfun og ríkt framtíðareftirlit breytir engu um þá niðurstöðu að töluverðar líkur eru á að hundurinn bíti aftur. Það er sömuleiðis álit héraðsdýralæknis að aflífa skuli hunda í tilvikum sem þessum," segir í bréfinu.
Eins og Vísir hefur greint frá réðist tíkin á nágrannakonu eigendanna sem ætlaði að koma í heimsókn til þeirra. Tíkin var þá fyrir framan húsið, föst í snúru sem lá í gegn um bréfalúgu á útidyrum heimilisins. Samkvæmt lýsingu stökk hún skyndilega fram og beit í framhaldlegg konunnar í þann mund sem hún var að ganga framhjá.
Tíkin er sextán mánaða gömul, tiltölulega nýkomin úr fjögurra vikna dvöl í Einangrunarstöðinni í Reykjanesbæ en til þrettán mánaða aldurs dvaldi hún á ræktunarbúi erlendis.

Í skapgerðarmati segir að Rottweilerhundum sé eðlislægt að verja heimasvæði sitt. Því sé mikilvægt að þjálfa þá vel. „Það er skoðun undirritaðra að hægt sé að þjálfa hundinn svo hann sýni ekki þessa ríku varnaráráttu og svona árás er vel hægt að koma í veg fyrir með því að setja hundinn aldrei í þessar aðstæður aftur, í band fyrir utan hús né hafa hann án eftirlits innan girðingar á lóðinni eða utan," segir í matinu sem gert var þann 10. mars af hundaatferlisráðgjafa og dýralækni.
Þar kemur fram að á henni hafi verið gert svokallað S.A.F.E.R. próf sem er viðurkennt til að meta skapgerð hunda og viðbrögð þeirra við áreitni.
Ógnar ekki þegar matur er tekinn af henni
„...kom vel út úr þessu prófi, hún sýndi enga tilburði til að verja sig né glefsa eða bíta. Það kom samt fram að hún er dálítið til baka, dregur sig í hlé og er hrædd við sumt af þessu áreiti. Hún sýndi engin merki um ógnun í sambandi við mat þegar hann var tekinn af henni né þegar henni var bannað að borða góðgæti sem dottið hafði á gólfið," segir í skapgerðarmatinu.
Þá telja matsmenn að sú aðstaða sem hundurinn var í þegar árásin átti sér stað, bundin við húsið, geti að hluta til skýrt hegðun hennar og sé það á ábyrgð eigenda að hafa sett hundinn í þá aðstöðu. Bent er á að tíkin verði ekki fullorðin fyrr en 36 mánaða og þangað til eigi að vera hægt að veita henni markvissa þjálfun og aga.
Aldrei fengið formlega þjálfun
Héraðsdýralæknir gagnrýnir hins vegar, eins og fram kemur í skapgerðarmati, að tíkin hefur hingað til aldrei „fengið neina formlega þjálfun né uppeldi sem er algjört grundvallaratriði með hunda af þessari tegund, stærð og uppruna."
Í bréfi héraðsdýralæknis segir ennfremur: „... dýralæknir tjáði mér munnlega að tíkin þekkti ekki nafnið sitt, þrátt fyrir að vera orðin 16 mánaða gömul."