Lífið

Rísandi stjarna á Indlandi með íslenskar rætur

Angela hefur vakið mikla athygli á Indlandi eftir að hún vann raunveruleikaþátt þar í landi.
Angela hefur vakið mikla athygli á Indlandi eftir að hún vann raunveruleikaþátt þar í landi.
Indverjar líta með spenningi til nýjustu stjörnu fyrirsætubransans þar í landi. Angela Jonsson, sem meðal annars bar sigur úr býtum í indverskum raunveruleikaþætti fyrir stuttu, er forsíðustúlka hins indverska Cosmopolitan í þessum mánuði en í viðtali við blaðið segir hún frá því að þrátt fyrir að hafa búið alla tíð á Indlandi sé hún hálfíslensk.

„Mamma mín er indversk og pabbi minn er íslenskur en saman eignuðust þau tíu börn og ég ólst því upp í stórum systkinahópi á risastórum búgarði í fjallaþorpinu Kodaikanal á Suður-Indlandi," upplýsir Angela þegar Fréttablaðið slær á þráðinn til Indlands. Faðir hennar, Vilhjálmur Jónsson, fluttist til Indlands fyrir tæplega þrjátíu árum og kynntist þar móður hennar, Söndru Tamar.

Foreldrar hennar hafa vakið mikla athygli þar í landi fyrir störf sín í þágu mannúðarmála en þau hafa einkum unnið með ungu heyrnarlausu fólki auk þess sem þau reka heimaskóla. Anglea sjálf býr um þessar mundir í Mumbai enda í nægu að snúast hjá henni sem fyrirsæta.

Hin tvítuga Angela Jonsson í auglýsingu fyrir einn þekktasta baðfataframleiðanda Indlands.
„Það er ekki langt síðan ég fór að sitja fyrir, ekki nema hálft ár, en það hefur gengið vonum framar.

Vinur minn stakk upp á því að ég færi í áheyrnarpróf fyrir vinsælan raunveruleikaþátt hér í landi þar sem leitað er að stúlku til að sitja fyrir á Fisherking-dagatalinu, sem er mikil viðurkenning," segir Angela. Fisherking er þekktasta baðfatamerki Indlands og margar af þekktustu fyrirsætum Indlands hafa klæðst slíkum baðfötum.

„Ég vann síðan keppnina og fluttist fljótlega eftir það til Mumbai, þar sem ég hef sinnt ýmsum verkefnum síðan." Angela er forsíðustúlka Cosmopolitan í Indlandi í þessum mánuði og segir í viðtali við blaðið að útlit hennar veki mikla athygli, enda góð íslensk-indversk blanda.

Angela á forsíðu indverska Cosmopolitan.
„Það gagnast mér í þessum bransa að vera þessi hristingur af Íslendingi og Indverja og gefur mér þetta framandi útlit sem leitað er að hérlendis," segir Angela. Hún hefur verið orðuð við Bollywood-kvikmyndaiðnaðinn sem afar erfitt er að komast inn í. Angela er mikill dansari, hefur komið fram sjálf og hefur sinnt danskennslu. Hún vill þó ekki gefa mikið upp enn þá, allt sé í vinnslu og vonandi gangi það upp.

„Nei, ég tala hvorki íslensku né skil en hef komið til Íslands að heimsækja ættingja og elska landið, það er svo fallegt. Ég veit samt ekki hvort ég gæti þolað kuldann til lengri tíma."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.