Lífið

Bjartmar í VIP-partíi Steinda

Mynd/Valgarður Gíslason
„Það verða þvílík „legend" að troða upp," segir Steindi Jr., sem á föstudagskvöld fagnar útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar, Án djóks – Samt djók, á skemmtistaðnum Austur.

Tónlistaratriðin verða ekki af verri endanum. „Bjartmar Guðlaugs kemur, hann er í persónulegu uppáhaldi og það kom aldrei neitt annað til greina en að fá hann til að spila. Svo verða þarna Þórunn Antonía, Berndsen, Gnúsi Yones og Gísli Galdur. Svo spila ég auðvitað líka."

Steindi og Rottweiler-hundurinn Bent halda partíið í samstarfi við Smirnoff. „Þetta verður skuggalegasta partí sem haldið hefur verið á Íslandi. Það verða bara boðsmiðar í partíið, svo það er heldur erfitt að fá miða." Verður þá allt þotuliðið á svæðinu? „Já, það má segja það. Jim Carrey, Ridley Scott, Charlize Theron og Oscar De La Hoya ætla öll að mæta," segir Steindi og hlær, en upp kemst um grínið þegar blaðamaður bendir á að hnefaleikakappinn sé þegar farinn af landi brott.

Hann segir að stemningin í partíinu endurspegli stemninguna á plötunni. „Það verður grínþema í partíinu. Sennilega verða hurðasprengjur á klósettinu og kannski mun einhver setjast á prumpublöðru," segir Steindi.

Hann er hinn ánægðasti með nýju plötuna, sem inniheldur fimmtán lög úr þáttum Steinda sem hafa verið á Stöð 2. „Þetta er grínplata, en samt ekki, eins og nafnið gefur til kynna. Þessi plata á pottþétt eftir að skemmta fólki, enda algjör partíplata."-ka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.