Innlent

Aurburður og öskufall ógnar bænum

Lengja hefur þurft varnargarð við Hverfisfljótið undan Vatnajökli um hátt í hálfan kílómeter á tveimur árum. Aukinn aurburður og öskufall hafa hækkað yfirborð árinnar hratt sem ógnar nú nálægum bæ.

Þessa dagana er unnið að því að lengja varnargarðinn við Hverfisfljótið um tvö hundruð metra. Hann var lengdur um tvö hundruð og fimmtíu metra í fyrra og því hefur hann verið lengdur um tæpan hálfan kílómeter á tveimur árum.

Fljótið ógnar bænum Hvol sem er þar skammt frá. Yfirborð þess hefur hækkað hratt síðustu ár og hefur því þurft að lengja varnargarðinn til að koma í veg fyrir að vatn flæði um bæinn. Varnarnargarðurinn er nú orðinn um kílómeter að lengd. Hannes Jónsson bóndi á Hvoli segir aurinn fyrir vestan varnargarðinn hafa hækkað um hálfan meter bara í sumar. Það séu bæði aska og aurburður sem hafi þessi áhrif.

Hluti af heimili hans stendur nú rúmum meter undir yfirborði árinnar og það eina sem aftrar því að vatn fljóti um allt er varnargarðurinn. Hannes býst við að hann þurfi að bregða búi áður en langt um líður. ,, Ef þetta verður svona þá lýst mér ekkert á að þessi slagur standi nema í tuttugu eða þrjátíu ár í viðbót. Þá sé hann tapaður að einhverju leyti en ég veit ekki alveg en ég reyni að tefja meðan ég get".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×