Casper Christensen er kominn með nýja dömu upp á arminn. Hún heitir Isabel Friis-Mikkelsen og er 25 ára. Og þar af leiðandi átján árum yngri en danski grínistinn. Isabel hefur verið persónuleg aðstoðarkona leikarans undanfarin ár og nú virðist sem þau hafi tekið það starf með sér heim. Casper harðneitaði reyndar að viðurkenna að það væri eitthvað þeirra á milli í júlí á þessu ári en þá voru þau nýkomin heim úr vikuferð frá Mallorca. Casper var áður í sambúð með Iben Hjejle en hún lék stórt hlutverk í Klovn-þáttunum. Casper og Iben komu oft til Íslands og héldu meðal annars upp á jólin hér á landi. Og því má fastlega reikna með því að Isabel verði fljótlega Íslandsvinur.
Skötuhjúin hafa vakið mikla athygli í Danmörku, ekki eingöngu vegna aldursmunarins heldur einnig fyrir þá staðreynd að Isabel er dóttir Jarls Friis-Mikkelsen sem er góðvinur Caspers og Franks Hvam og hefur af og til leikið í Klovn-þáttunum. Í samtali við BT viðurkennir Jarlinn, eins og hann er kallaður í dönskum miðlum, að sambandið hafi komið honum í opna skjöldu en hann sjái enga meinbugi á því. „Aldursmunur er ekki neitt atriði, þetta snýst allt um hugarfarið. Og ég held að Casper sé sérlega ungur í anda," hefur BT eftir honum en Jarlinn er sjálfur giftur Susanne Pehrsson sem er 23 árum yngri. „Ástin er eins og Guð, vegir hennar eru órannsakanlegir," bætir hann við.
Trúðurinn Casper kominn á fast
