Innlent

Kolka í aðgerð

Kolka, fimm mánaða gömul tík, þjáðist vegna misvaxtar á beinum í framfæti og gekkst undir aðgerð á Dýraspítalanum í Víðidal. Anton Brink ljósmyndari fylgdi henni þangað.

„Svona lagað er fremur sjaldgæft og oft mjög erfitt viðureignar," segir Ólöf Loftsdóttir, dýralæknir á Dýraspítalanum í Víðdal. Ólöf er ein þeirra sem gerði aðgerð á Kolku, fimm mánaða gamalli border collie-tík, í síðasta mánuði.

Ástæða þess að gera þurfti aðgerð á Kolku  var misvöxtur á beinum í öðrum framfætinum. Vaxtalína annarrar pípunnar í fætinum lokaðist og þvingaði þannig vöxt hinnar pípunnar, sem sveigðist og byrjaði að afmynda fótinn. Án aðgerðar hefði komið sífellt meiri sveigja á beinið eftir því sem það stækkaði.

„Aðgerðin gekk út á að losa um þessa spennu," segir Ólöf. „Við söguðum í sundur pípuna sem var of stutt svo hin pípan geti rétt úr sér. Vonandi hefur tekist að rétta þessa afmyndun á framfætinum, en líklega gengur þetta aldrei alveg til baka. Sennilega á Kolka alltaf eftir að finna eitthvað fyrir þessu."

Eigandi Kolku er Þórhildur María Bjarnadóttir, fimmtán ára nemi í Hvassaleitisskóla, sem er mikill dýravinur og útilokar ekki að leggja dýralækningar fyrir sig í framtíðinni. Bergþóra Arnarsdóttir, móðir Þórhildar Maríu, segir dóttur sína ítrekað hafa beðið um hund á heimilið síðustu ár, en sjálf segist Bergþóra ekki sérlega mikil hundamanneskja. „Ég var á leiðinni út í búð eitt kvöldið þegar sá mjög fallegan hund og eigandi hans gaf mér símanúmer hjá fólkinu sem hann fékk hundinn hjá. Daginn eftir skelltum við okkur upp í Hvalfjörð og þá kom þessi litli engill hlaupandi beint í fangið á okkur og knúsaði. Það var ást við fyrstu sýn, því hún Kolka er alveg yndisleg. Eftir aðgerðina líður henni vel þótt hún verði líklega alltaf örlítið hölt, en Kolka bætir það bara upp með öllu öðru," segir Bergþóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×