Útgáfutónleikar Grafíkur verða haldnir í Austurbæ í kvöld í tilefni af nýrri safnplötu með bestu lögum hljómsveitarinnar og nýrri heimildarmynd.
Fyrsta lag Grafíkur í langan tíma, Bláir fuglar, fylgir með á plötunni sem er gefin út vegna þrjátíu ára afmælis sveitarinnar. Það er í öðru sæti á vinsældarlista Rásar 2, sína aðra viku á lista. Þegar Grafík sló fyrst í gegn árið 1984 átti hún lög á borð við Þúsund sinnum segðu já og Húsið og ég á topp tíu á sömu stöð.
Bláir fuglar var samið rétt fyrir andlát trommuleikarans Rafns Jónssonar af þeim Helga Björnssyni, Rúnari Þórissyni og Rafni. Textinn er eftir Helga og var saminn á þilfari Norrænu á leið til Færeyja þar sem bláir fuglar sveimuðu yfir haffletinum. Fjallar hann um það hvernig það er að upplifa missi og söknuð.
Á tónleikunum í kvöld munu vinsælustu lög Grafíkur hljóma, sungin af þeim Helga Björnssyni og Andreu Gylfadóttur.
