Innlent

Kínverji vill reisa risahótel á Grímsstöðum á Fjöllum

Kínverskur auðjöfur hefur kynnt sveitarstjórnarmönnum á Norðausturlandi áform um milljarða fjárfestingu í ferðaþjónustu á svæðinu, sem fela meðal annars í sér byggingu stór hótels á Grímsstöðum á Fjöllum.

Greint var frá því í Morgunblaðinu á laugardag að Kínverjinn Huang Nobu hefði að undanförnu verið að kanna fjárfestingartækifæri í ferðaþjónustu á Íslandi. Vitnað var í tímaritið Forbes um að hann væri í 161. sæti yfir ríkustu menn Kína.

Áhugi hans virðist einkum lúta að Norðausturlandi og honum virðist vera full alvara því hann mætti í dag með sendinefnd til fundar á Grímsstöðum á Fjöllum með landeigendum og sveitarstjórnarmönnum úr Norðurþingi og Langanesbyggð. Fullyrt er að Kínverjinn sé heillaður af þessu svæði, ekki síst Jökulsársgljúfrum og Dettifossi, og sé tilbúinn að fjárfesta þar í ferðaþjónustu fyrir háar fjárhæðir, sem hlaupi á milljörðum króna.

Þegar leitað var nánari fregna á Grímsstöðum í dag vildu menn þar á bæ ekkert tjá sig um málið en samkvæmt heimildum Stöðvar 2 er uppbygging stórs hótels á Grímsstöðum til umræðu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×