Lífið

Bryndís Jakobs komst inn í eftirsótt nám í Köben

Mynd/Anton Brink
"Þetta kom mér mjög á óvart og ég bjóst engan veginn við því að komast inn," segir tónlistarkonan Bryndís Jakobsdóttir sem komst á dögunum inn í The Royal Danish Academy of Music í lagasmíði. Milli 150 og 200 sóttu um námið en aðeins fimm komust að.

"Ég var á leiðinni í sálfræði í haust og sótti um lagasmíðina til að prófa, en ég vissi að það væri erfitt að komast inn," segir Bryndís sem búsett er í Kaupmannahöfn ásamt kærasta sínum Mads Mouritz, og Magnúsi, sex mánaða syni þeirra.

Bryndís er þessa dagana stödd í fríi á Íslandi og nýtir tímann til að leggja lokahönd á plötu dúettsins Song for Wendy, sem skipaður er henni og Mads. Platan á að koma út með haustinu en þau leita nú að heppilegri útgáfu til að gefa hana út.

"Þegar ég var ólétt í fyrrasumar vorum við dugleg að fara upp í sumarbústað hérna á Íslandi og semja saman. Að lokum vorum við komin með efni í heila plötu og vissum í raun ekkert hvað við áttum að gera við það," segir Bryndís en skötuhjúin drifu sig í tónleikaferðalag um Danmörku í kjölfarið og þau ákváðu að taka upp lögin í leiðinni.

"Það er svo auðvelt og lítill kostnaður þegar við erum bara tvö saman í hljómsveit. Við tókum bara lestina og ferðuðumst á milli," segir Bryndís sem var ólétt í ferðalaginu og hélt síðustu tónleikana komin viku fram yfir settan dag. "Ég fór alveg tvær vikur fram yfir settan fæðingardag, svo þetta var allt í góðu og bara fínt að stytta biðina eftir barninu með tónleikahaldi."

Aðspurð hvort það taki ekki á að búa saman og vinna saman eins og Bryndís og Mads gera svarar hún neitandi. "Það er mjög þægilegt að vera bæði í sama geira en hann er líka að gera sitt eigið efni og ég mitt. Við eyðum miklum tíma saman en það gengur vel. Ég er spennt að byrja í náminu í haust og Kaupmannahöfn er yndisleg borg að búa í með barn. Við erum samt alltaf með annan fótinn á Íslandi."
alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.