Innlent

BSRB vilja líka draga launalækkanir til baka

BSRB telur þá ákvörðun kjararáðs að draga til baka launalækkanir hjá ráðherrum, þingmönnum og embættismönnum, hljóta að vera fordæmisgefandi fyrir félagsmenn BSRB. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á heimasíðu bandalagsins í dag.

Þar segir að í kjölfar efnahagshrunsins hafi fjöldi félagsmanna bandalagsins misst vinnuna og þeir hafi einnig þurft að taka á sig tímabundnar launalækkanir og skert starfshlutfall.

Nú hefur kjararáð riðið á vaðið og leiðrétt þessar tímabundnu launalækkanir hjá ákveðnum hópi opinberra starfsmanna og krefst BSRB þess að leiðréttingar á kjörum félagsmanna bandalagsins muni einnig koma til framkvæmda hið fyrsta.

Mun BSRB í kjölfarið fara fram á viðræður við fjármálaráðherra um hvernig staðið verði að þeim leiðréttingum.


Tengdar fréttir

Launalækkanir ráðamanna afnumdar

Kjararáð ákvað í gær að draga til baka allar þær launalækkanir sem ráðist var í fyrst eftir bankahrunið. Ákvörðun ráðsins er tekin á grundvelli heimildar frá Alþingi. Samkvæmt ákvörðuninni um launalækkunina sem tekin var haustið 2008 var kjararáði gert að lækka laun alþingismanna og ráðherra um 5-15% og lækka í kjölfarið laun annarra sem undir ráðið heyra til samræmis. Nú hefur sú ákvörðun verið numin úr gildi og er sú ákvörðun afturvirk til 1. október síðastliðins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×