Innlent

Varað við versnandi veðri á vestanverðu landinu

Vaxandi suðaustanátt um landið vestanvert í dag, með snjókomu og skafrenningi samkvæmt upplýsingum frá vegagerðinni.

Færð getur spillst mjög fljótt undir þessum skilyrðum og skyggni verður mjög takmarkað. Seint í nótt snýst í hvassa vestanátt með dimmum éljum fram eftir morgundeginum. Austanlands verður veður mildara, en þó snjókoma eða slydda suðaustanlands og á sunnanverðum Austfjörðum.

Það er hálka á Hellisheiði og í Þrengslum. Á Suðurlandi er hálka á flestum leiðum þó er þæfingur og snjóþekja á fáfarnari leiðum.

Hálkublettir eru á Suðurstrandarvegi en hálka á fáfarnari leiðum.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er víðast hvar hálka eða snjóþekja en sumstaðar nokkur skafrenningur.

Hálka er einnig á Norðurlandi og Austurlandi. Snjóþekja eða þæfingur er á fáeinum útvegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×