Innlent

Grafalvarlegt mál ef menn yfirgefa slysavettvang

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Slysið varð rétt við Borgarfjarðarbrúna.
Slysið varð rétt við Borgarfjarðarbrúna. mynd/ vilhelm.
„Þetta er bara orðin spurningin um miskunnsama Samverjann,“ segir Bjarni Kristinn Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð. Slökkviliðsmenn í Borgarbyggð urðu fyrir því á laugardag að maður tilkynnti bílveltu rétt við brúna við Borgarnes. Hann neitaði hins vegar að stöðva og bar því við að hann væri með börn í bílnum. Neyðarlínan þorði ekki annað en að kalla út tækjabíl ef ske kynni að menn væru fastir í bílnum.

„Mér finnst þetta vera orðið alvarlegt mál því þetta er víst ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist. Maður spyr sig bara hvar samhjálpin er í dag," segir Bjarni. „Og mér finnst það vera mjög alvarlegt mál ef fólk er farið að leika þennan leik að hringja inn og neita að stöðva og bera öllum andskotanum við," bætir hann við.

Í almennum hegningarlögum er kveðið á um að láti maður farast fyrir að koma manni til hjálpar, sem staddur er í lífsháska, þótt hann gæti gert það án þess að stofna lífi eða heilbrigði sjálfs sín eða annarra í háska, þá varði það allt að tveggja ára fangelsi eða fjársektum ef málsbætur séu fyrir hendi.

Einar Magnús Magnússon, hjá Umferðarstofu, segir að Umferðarstofu hafi borist tilkynning um málið í morgun og lítið það alvarlegum augum.


Tengdar fréttir

Ók fram á umferðarslys án þess að stansa

Ökumaður sem keyrði framhjá bíl sem hafði oltið í Borgarnesi á laugardaginn ákvað að keyra framhjá vettvangi án þess að stöðva bílinn og veita aðstoð. Maðurinn hringdi aftur á móti í Neyðarlínuna 112 og tilkynnti slysið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×