Innlent

Bjartari tímar framundan í HIV málum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það eru bjartari tímar framundan þótt útlitið undanfarið hafi verið dökkt, segir Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV samtakanna á Íslandi. Alþjóðlegi alnæmisdagurinn er í dag og því verða samtökin með opið hús hjá sér milli klukkan fjögur og sjö í dag. Einar segir að það hafi orðið mikil aukning í HIV smiti undanfarin ár. Þá aukningu megi helst rekja til sprautusjúklinga. „Það er í mörgum tilfellum fólk sem á erfitt og býr við erfiðar félagslegar aðstæður," segir Einar.

Þróunin almennt séð sé hins vegar jákvæð. „Það sem er að gerast í HIV málunum á alheimsnótum er að þessar lyfjameðferðir gefa svo góða raun að fólk sem er á virkri ábyrgri lyfjameðferð þannig að veiran er ómælanleg í líkamanum og mjög hverfandi líkur á að það geti smitað aðra," segir Einar.

Einar segir að búið sé að gera stórátak í að koma lyfjum til Afríku á þau svæði sem verst hafa orðið úti. „Menn eru farnir að sjá fram á það að hægt verði að ná böndum yfir þennan sjúkdóm. Svipað og með berklana í gamla dagana," segir Einar. Góðar líkur séu á því að á næstunni komi ár þar sem engin smit komi upp hér á landi.

„En stjórnvöld þurfa að vinna með okkur, sem og aðrar stofnanir samfélagsins. Við þurfum að vera dugleg í fræðslu og það þarf að vera óheft aðgengi að smokkum og hreinum sprautum," segir Einar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×