Innlent

Einn skotárásarmannanna tekur amfetamín daglega

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglan vaktar Bryggjuhverfið eftir að skotárásin átti sér stað.
Lögreglan vaktar Bryggjuhverfið eftir að skotárásin átti sér stað.
Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhald yfir manni vegna manndrápstilraunar í Bryggjuhverfi til áttunda desember næstkomandi. Maðurinn segist nota amfetamín og Mogadon daglega. Þetta kom fram í yfirheyrslum yfir manninum hjá lögreglu eftir að hann var handtekinn. Héraðsdómur Reykjavíkur framlengdi gæsluvarðhaldsúrskurðinn yfir manninum þann 29. nóvember síðastliðinn.

Maðurinn situr, ásamt öðrum manni, í gæsluvarðhaldi vegna skotárásar sem var gerð þann 18. nóvember síðastliðinn. Skotið var á rúður bíls en í bílnum voru tveir menn. Annar þeirra hafði mælt sér mót við einn þeirra sem grunaðir eru um aðild að skotárásinni.

Maðurinn hefur neitað allri aðild að málinu við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann segist hins vegar ekki geta gert grein fyrir ferðum sínum 18. nóvember með öðrum hætti en að hafa verið á „þvælingi." Hann kveðst daglega nota amfetamín og Mogadon og kveðst ekki muna hvar hann hafi verið staddur um átta þetta kvöld. Tilkynningin um skotárásina barst lögreglu rétt eftir klukkan átta.

Samkvæmt upplýsingum úr lyfjabókinni hefur Mogadon svæfandi, kvíðastillandi og vöðvaslakandi verkun. Amfetamin er hins vegar örvandi efni.

---------------

Í frétt sem birtist upphaflega á vefnum þann 2. desember var fullyrt að gæsluvarðhald yfir umræddum manni hafi verið framlengt í dag. Það er rangt. Hæstiréttur var að staðfesta gæsluvarðhald yfir þessum umrædda manni. Héraðsdómur Reykjavíkur framlengdi hins vegar gæsluvarðhald úrskurð yfir félaga mannsins, sem grunaður er um að hafa verið í vitorði með honum, í dag til áttunda desember. Þeir hafa því báðir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til áttunda desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×