Innlent

Nota fimm eða fleiri lyf að staðaldri - sláandi niðurstöður

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Ríflega fjörutíu prósent aldraðra nota fimm eða fleiri lyf að staðaldri samkvæmt nýrri rannsókn sem gerð var á Norðurlandi. Hjúkrunarfræðingur sem vann rannsóknina segir þetta sláandi niðurstöður.

Erlendar rannsóknir sýna að lyfjanotkun eldra fólks hefur aukist á síðustu áratugum. Í nýjasta hefti Læknablaðsins eru birtar niðurstöður úr nýrri rannsókn á lyfjanotkun eldri Íslendinga sem enn búa heima. Skoðuð var lyfjanotkun fólks 65 ára og eldri og athugað hvort það væri munur á notkuninni meðal þeirra sem búa í þéttbýli og þeirra sem búa í dreifbýli. Notast var við úrtak sem tekið var meðal íbúa á Norðurlandi.

Árún Kristín Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur er ein þeirra sem vann rannsóknina. Hún segir niðurstöðurnar sýna að íbúarnir hafi notað um fjögur lyf að meðaltali. Ekki var marktækur munur á lyfjanotkun hjá þeim sem búa í þéttbýli og þeim sem búa í dreifbýli.

,, Hins vegar sýndi það sig að dreifbýlisbúarnir í þessari rannsókn höfðu meiri verki, höfðu meiri þunglyndiseinkenni og höfðu lakari líkamlega færni, mælt með þessum mælitækjum sem við notuðum, en notuðu samt færri lyf", segir Árún.

Þá sýndi rannsóknin að 11% notuðu engin lyf og 48% tóku eitt til fjögur lyf að staðaldri. Þá tóku 41% fimm eða fleiri lyf sem telst vera fjöllyfjanotkun. Af þessum 41% notuðu 4% tíu eða fleiri lyf. ,, Það er kannski sláandi hversu margir nota fimm lyf eða fleiri. Ég held að það þurfi að huga vel að þeim sem eru að taka mörg lyf því að þá er komin milliverkun á milli lyfja og lyf geta farið að hafa óæskileg áhrif", segir Árún Kristín Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×