Innlent

Íbúar í Skaftárhreppi þreyttir á öskunni

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Eygló Kristjánsdóttir sveitastjóri í Skaftárhreppi.
Eygló Kristjánsdóttir sveitastjóri í Skaftárhreppi.
Aska heldur áfram að gera íbúum í Skaftárhreppi lífið leitt sem eru orðnir þreyttir á ástandinu. Þeir vilja fá svifryksmæli í Fljótshverfið en hafa þó andað léttar eftir að snjórinn kom.

Öskufall hefur haft mikil áhrif á líf íbúa í Skaftárhreppi. Gosinu í Eyjafjallajökli vorið 2010 og Grímsvatnagosinu í vor fylgdu mikið öskufall á svæðinu. Víða er enn aska og um leið og þegar vindur blæs fá íbúar að finna fyrir henni. Askan sest á hús og bíla sem þarf því að þrífa aftur og aftur.

Eygló Kristjánsdóttir er sveitastjóri í Skaftárhreppi segir að fólk sé orðið þreytt. „Ég held að það sé aðallega. Skaftfellingar eru seint þreyttir til vandræða en við svona látum hvern dag líða en fólk er orðið þreytt. Þetta er mikið álag og er mikil vinna."

Eygló segir svifryksmengun oft mikla. Í vor hafi verið settur upp svifryksmælir í Fljótshverfinu. Hann hafi hins vegar verið tekinn fljótlega niður þar sem hann virkaði einfaldlega ekki. Hún telur mikilvægt að setja slíkan mæli aftur upp í Fljótshverfinu til að hægt sé að fylgjast með svifrykinu. „Þar sem að mesta askan var og er. Ef það kemur rok þá finna þau langmest fyrir því. Við finnum minna fyrir því hér en austur í Fljótshverfi er nauðsynlegt að fá svifryksmæli", segir Eygló.

Hún segir íbúa á svæðinu ekki sjá fyrir endann á þessu ástandi. „Það er náttúrulega ómögulegt að segja til um hversu lengi. Er á meðan er. Nú er kominn snjór þannig að við öndum aðeins léttar", segir Eygló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×