Innlent

Ögmundur: Vona að ekki sé verið að leiðbeina Nubo framhjá lögum

Innanríkisráðherra segist vona að ekki sé verið að leiðbeina Nubo framhjá íslenskum lögum. Það sé ekkert óeðlilegt við það að ráðuneytið hafi ekki haft samband við fjárfestinn. Hlutverk þess sé ekki að standa í samningaviðræðum.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, sagðist í fréttum okkar í gær ætla að vera í sambandi við Nubo og hans fólk til að vinna megi að því að fjárfesting hans geti orðið að veruleika í samræmi við íslensk lög.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir hins vegar að leigusamningur til þriggja ára eða lengur, án uppsagnarákvæðis, þurfi að fara til umfjöllunar í innanríkisráðuneytinu. „Það er allveg sjálfsagt og eðlilegt að manninum sé leiðbeint um fjárfestingar hér en menn verða að virða lögin og í anda laganna," segir Ögmundur og bætir við að hann gruni að í Magma málinu svokallaða hafi fyrirtækinu verið leiðbeint til þess að komast framhjá íslenskum lögum.

Ráðherrann segir mikilvægt fyrir Íslendinga að halda eignarhaldi á landinu. „Við þurfum að vera í alvörunni á varðbergi gagnvart því að halda eignarhaldi á auðlindum hér innanlands."

Hann segir ekkert óeðlilegt að lítið samband hafi verið haft við Nubo við umfjöllun undanþágubeiðni hans. „Við vorum einfaldegga að taka afstöðu til undanþágubeiðni. Við vorum ekki í samningaviðræðum."

Ögmundur segir það mikilvægt að hafa í huga að um sé að ræða fyrirtæki en ekki einstakling. Reyndar séu strangari ákvæðin sem snúa að hlutafélögum og ekkert þeirra hafi verið uppfyllt í þessu tilviki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×