Innlent

Vídeóleigum fer fækkandi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Myndbandaleigur eiga nú undir högg að sækja en markaðurinn hefur dregist saman um rúman helming á tíu árum. Margar leigur hafa lagt upp laupana á síðustu misserum.

Hér á árum áður voru myndbandaleigur nánast á hverju einasta götuhorni. Hérna á horni Bræðraborgarstígs og Holtsgötu var Vídeóspólan til húsa, ein fyrsta myndbandaleigan á höfuðborgarsvæðinu. Þessu húsnæði var breytt í íbúð fyrir all mörgum árum en aðrar myndbandaleigur hafa mætt svipuðum örlögum.

Við Hofsvallgötu var um árabil rekin myndbandaleiga sem nú er búið að loka. Sömu sögu er að segja frá Vídeóljóninu við Dunhaga og hægt er að nefna fjölmörg önnur dæmi.

Samkvæmt tölum sem hagstofan birti í vikunni hefur myndbandamarkaðurinn dregist saman um nærri helming á undanförnum tíu árum. Árið 2001 nam heildarfjöldi útleigðra myndbanda og DVD diska rúmum þremur milljónum eintaka en á síðasta ári var talan komin niður í rúma eina og hálfa milljón.

Ásgeir Óskarsson, einn eigandi myndbandaleigunnar James Bönd, kennir meðal annars auknu niðurhali um samdrátt á markaði.

Hvernig hafið þið verið að bregðast við þessum breyttu aðstæðum á markaði? „Við höfum brugðist við með því að bæta úrvalið, með mikið af titlum sem við kaupum erlendis frá. bæði af gömlum myndum sem fást ekki víða og eins þáttum. og þannig. það hefur sitt að segja og við fáum fólk víða að. þetta spyrst út."

Trúir þú því að eftir tíu til tuttugu ár að það verði áfram vídeóleigur starfandi hérna á höfuðborgarsvæðinu? „Já ef við höldum áfram að standa okkur eins vel og við gerum í dag þá hef ég fulla trú á því. Maður gefst ekki upp."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×