Innlent

Grunaður um kynferðisbrot gegn 11 ára dóttur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Maðurinn er úrskurðaður í gæsluvarðhald til 10. desember.
Maðurinn er úrskurðaður í gæsluvarðhald til 10. desember.
Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Vesturlands yfir manni sem grunaður er um að hafa beitt ellefu ára gamla dóttur sína kynferðisofbeldi. Stúlkan mun hafa sagt vinum sínum frá ofbeldinu.

Maðurinn mun sæta gæsluvarðhaldi til 10. desember næstkomandi. Það er lögreglan á Akranesi sem rannsakar málið en fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Vesturlands frá 1. desember síðastliðnum að rannsókn málsins sé stutt komin.

Í greinargerð með gæsluvarðhaldskröfu lögreglunnar á Akranesi kemur fram að á þriðjudag í síðustu viku hafi lögreglan reynt að hafa upp á manninum en hann hafi falið sig og hafi lögmaður hans komið þeim skilaboðum til lögreglu að hann ætlaði ekki að gefa sig fram eða tala við lögreglu fyrr en í gær og þá með lögmanni sínum. Hafi lögmanninum verið gerð grein fyrir því að lögreglan hafi viljað fá kærða til viðtals strax vegna rannsóknar málsins og kynna honum framkomna kæru.

Telur lögreglan það skipta gríðarlega miklu máli að geta borið kæruefni undir sakborninga eins fljótt og unnt sé. Hafi maðurinn því með þessari háttsemi sinni þegar torveldað rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×