Innlent

Verulega dregur úr brottkasti á fiski

Verulega hefur dregið úr því að sjómenn kasti fiski aftur í sjóinn ef hann er ekki af ákjósanlegri stærð, eða ef ekki er til kvóti fyrir tiltekinni fiskitegund.

Samkvæmt mælingum Hafrannsóknarstofnunnar mældist brottkast í fyrra hið næst minnsta frá aldamótum. Ef litið er á brottkast á þorski frá aldamótum, er það talið nema innan við einu prósenti af lönduðum afla, og innan við hálft prósent í fyrra. það hefur verið nokkuð hærra í ýsu og var þannig rösklega eitt prósent í fyrra.

Hluta þessa má rekja til þess að fiski, sem hefur eitthvað skemmst í veiðarfærum, er gjarnan hent.

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar kemur fram að brottkast á þorski og ýsu hefur greinilega verið minna síðustu þrjú til fjögur árin en var fyrstu árin upp úr aldamótum.

Þá hefur nýting í landi batnað til muna upp á síðkastið eftir að markaður hefur opnast í Asíu fyrir afskurð, hausa, sporða og jafnvel sum innyfli, en þessar afurðir fara nú til manneldis í stað þess að vera bræddar í mjöl og lýsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×