Innlent

SUS: Augljós pólitísk afskipti af bankasýslu - leggja á hana niður

Davíð Þorláksson er formaður SUS
Davíð Þorláksson er formaður SUS
„Þetta eru 76 milljónir og það er of mikið fyrir eitthvað sem er óþarfi," segir Davíð Þorláksson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Félagið telur að nota hefði átt tækifærið, eftir að forstjóri og stjórn Bankasýslu ríkisins sögðu af sér fyrir skemmstu, til þess að leggja stofnunina niður. Í gær voru nöfn þeirra þrettán sem sóttu um starf forstjórans birt, en athygli vekur að engin kona var á meðal umsækjanda.

Davíð segir að það sé töluverður kostnaður sem fylgir rekstri Bankasýslu ríkisins, að minnsta kosti ef litið er til þess sem er verið að skera niður í heilbrigðiskerfinu. Kostnaðurinn við Bankasýsluna sé til að mynda 1/10 af því sem Sinfóníuhljómsveit Íslands kostar.

Hann segir að sagt sé að tilgangurinn með stofnuninni sé að koma í veg fyrir pólitískt afskipti í bönkunum. „Það er bara ekki rétt, það eru gríðarleg afskipti þarna sem sannaðist þegar stjórnin sagði öll af sér nýlega."

Þá segir Davíð að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafi handstýrt því hvaða eignarhluta hann ætli sjálfur að véla með og hverja þeirra Bankasýslan annist, og nefnir sölu SPKef til Landsbankans.

„Það er líka svolítið galin umræða að það eigi að taka allt úr höndum ráðherra og setja í hendur embættismanna, það er vond og ólýðræðisleg þróun, því ráðherrar eru kosnir lýðræðislega. Þó að stjórnmálamenn geta verið vondir er hægt að refsa þeim í næstu kosningun," bendir Davíð á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×