Fótbolti

Ronaldo hetja Portúgal sem komst á EM

Ronaldo og Nani fagna í kvöld en þeir fóru á kostum.
Ronaldo og Nani fagna í kvöld en þeir fóru á kostum.
Portúgal tryggði sér í kvöld síðasta farseðilinn á EM í knattspyrnu með 6-2 sigri á Bosníumönnum í hreint mögnuðum leik. Cristiano Ronaldo var hetja Portúgala líkt og svo oft áður.

Leikur liðanna var opinn og skemmtilegur. Cristiano Ronaldo kom Portúgal yfir með þrumufleyg beint úr aukaspyrnu af 35 metra færi og Nani lék sama leik er hann skoraði með ótrúlegu skoti af um 30 metra færi. 2-0 og Portúgal í góðum málum.

Zvjezdan Misimovic minnkaði muninn með marki úr víti fyrir hlé og haf Bosníumönnum von. Sú von minnkaði stórlega í upphafi síðari hálfleiks er Ronaldo skoraði aftur og von margra Bosníumanna hvarf endanlega er Senad Lulic fékk að líta rauða spjaldið á 53. mínútu.

Baráttuglaðir Bosníumenn neituðu að leggja árar í bát og 25 mínútum fyrir leikslok skoraði Emir Spahic og gaf Bosníumönnum óvænta von.

Portúgalar fóru þó ekki á taugum og Helder Postiga innsiglaði EM-sætið með marki á 72. mínútu við mikinn fögnuð heimamanna. Veislan var ekki búin því Miguel Veloso skoraði fimmta markið tíu mínútum fyrir leikslok og Postiga skoraði svo aftur tveim mínútum síðar.

Bosníumenn bugaðir en heimamenn léku á alls oddi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×