Enski boltinn

Sir Alex: Rooney og Hernández eins góðir saman og Yorke og Cole

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwight Yorke og Andy Cole.
Dwight Yorke og Andy Cole. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, vonast eftir því að samvinna Wayne Rooney og Javier Hernández í framlínunni verði jafn árangursríks og sú hjá þeim Dwight Yorke og Andy Cole þegar United vann þrennuna tímabilið 1998-99.

Rooney og Hernández snúa báðir inn í lið Manchester United í dag þegar liðið mætir nýliðum Norwich en United gerði jafntefli í síðustu tveimur leikjum sínum án þeirra. Þeir Rooney og Hernández  hafa þegar skorað 11 mörk saman í deildinni eftir aðeins sex umferðir í ensku úrvalsdeildinni.

„Þeir hafa ekki spilað fullt tímabil saman ennþá. Yorke og Cole skoruðu saman 52 mörk þetta tímabil sem var magnað því Yorkie var nýkominn til liðsins. Yorkie var einn besti framherjinn í Evrópu þetta tímabil og hann og Cole náðu einstaklega vel saman frá byrjun," sagði Sir Alex Ferguson.

„Ég vonast eftir því að Rooney og Hernández geti líka skorað 52 mörk saman en maður veit samt aldrei því þetta er erfið deild," sagði Ferguson.

„Það var ótrúlega markaógn í Hernández eftir að hann kom inn í liðið eftir jólin og strákurinn var fljótur að skora tvö mörk eftir að hann kom til baka. Ég býst við því að hann skori 25 mörk á tímabilinu því hann er með eitthvað auka í vítateignum," sagði Ferguson.

„Wayne er búinn að byrja frábærlega og er þegar búinn að skora níu mörk. Það efast enginn um hæfileikana þar á bæ. Ég er líka með þá Welbeck, [Michael] Owen, [Dimitar] Berbatov, [Federico] Macheda og [Mame Biram] Diouf. Þetta er frábær framherjahópur," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×