Enski boltinn

Szczescny hjá Arsenal: Búnir að henda út svæðisvörninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wojciech Szczesny, markvörður Arsenal, með félögum sínum í liðinu.
Wojciech Szczesny, markvörður Arsenal, með félögum sínum í liðinu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Wojciech Szczesny, markvörður Arsenal, segir að stjórinn Arsène Wenger hafi ákveðið að skipta um varnartaktík fyrir leikinn á móti Tottenham á White Hart Lane í dag.

Arsenal hefur jafnan spilað svæðisvörn í föstum leikatriðunum en Szczesny segir að hér eftir muni liðið spila maður á mann vörn. Arsenal er búið að fá á sig fjórtán mörk í fyrstu sex leikjunum og er aðeins í 13. sæti deildarinnar.

„Mér er alveg saman hvernig vörn við spilum bara ef að hún virkar. Ég er persónulega hrifnari af svæðisvörn en stjórinn ræður þessu," sagði Wojciech Szczesny.

„Við ákváðum að breyta til eftir Blackburn-leikinn. Það skiptir bara öllu að menn fylgi reglunum og geri þetta rétt. Við fengum ekkert mark á okkur á undirbúningstímabilinu úr föstum leikatriðum og svæðisvörnin var að virka vel," sagði Szczesny en Arsenal tapaði 3-4 á móti Blackburn.

„Það hefur verið vandamál hjá okkur að undanförnu að verjast föstum leikatriðum og það var það líka á síðasta tímabili. Við höfum unnið mikið í þessu og verðum bara betri eftir því sem tíminn líður," sagði Szczesny.

„Við erum með nýja vörn og leikmennirnir þurfa tímatil að ná betur saman. Við erum að vera betri í hverjum leik en þetta tekur allt tíma. Ef við stöndum saman og bætum okkur þá förum við halda oftar hreinu þegar líður á tímabilið," sagði Szczesny.

Leikur Tottenham og Arsenal hefst klukkan 15.00 í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×