Enski boltinn

Torres: Fyrstu mánuðirnir hjá Chelsea eru búnir að vera mjög erfiðir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres.
Fernando Torres. Mynd/Nordic Photos/Getty
Fernando Torres viðurkennir að fyrstu mánuðirnir hjá Chelsea hafi verið hans erfiðustu á ferlinum en að hann sé jafnframt þakklátur fyrir að stuðningsmenn félagsins hafi staðið við að bakið á honum allan tímann.

Chelsea keypti Torres frá Liverpool fyrir fimmtíu milljónir punda í janúar og það hefur gengið illa að skora hjá Spánverjanum. Torres hefur skorað í síðustu tveimur leikjum en í bæði skiptin hefur hann brugðist liðinu skömmu seinna í leikjunum, fyrst með að klúðra algjöru dauðafæri á móti Manchester United og svo með því að fá rautt spjald á móti Swansea.

„Þegar þú stendur þig vel og skorar frá fyrsta degi þá er auðvelt fyrir stuðningsmennina að elska þig en fyrstu mánuðirnir hjá Chelsea hafa verið mjög erfiðir," sagði Fernando Torres í viðtali á Chelsea TV.

„Ég hef samt alltaf fundið fyrir stuðningi frá fylgismönnum félagsins og ekki bara þegar hlutirnir gengu upp hjá mér. Það er gaman að vera byrjaður að skora fyrir þá. Þessi stuðningur hefur heillað mig frá fyrsta degi," sagði Torres en hann fékk rautt spjald fyrir tveggja fóta tæklingu á Mark Gower, leikmann Swansea.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég fæ rautt spjald í ensku úrvalsdeildinni og það verður vonandi það síðasta líka. Ég er mjög vonsvikinn því liðið þurfti að spila með tíu menn í langan tíma," sagði Torres en hann verður í leikbanni í næstu þremur deildarleikjum Chelsea sem er á móti Bolton Wanderers, Everton og Queens Park Rangers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×