Enski boltinn

Dirk Kuyt tjáir sig um bekkjarsetuna hjá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Kuyt ætlar að sanna sig.
Dirk Kuyt ætlar að sanna sig. Mynd/Nordic Photos/Getty
Dirk Kuyt hefur nú tjáð sig um vonbrigðin að missa sæti sitt í byrjunarliði Liverpool en Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, hefur veðjað á það að nota Jordan Henderson frekar en Hollendinginn sem hafði átt fast sæti í Liverpool-liðinu undanfarin ár.

Dalglish keypti Jordan Henderson fyrir 20 milljónir punda í sumar og Kuyt hefur aðeins byrjað helming leikja Liverpool-liðsins á þessu tímabili.

„Ég er að sjálfsögðu vonsvikinn að vera dottinn út úr liðinu," sagði Dirk Kuyt sem var aftur á bekknum á móti Wolves þrátt fyrir að hafa skorað í deildarbikarleik á móti Brighton í vikunni á undan.

„Ég hef frá barnæsku verið alltaf svekktur þegar ég fæ ekki að vera í byrjunarliðinu því ég vil fá að vera með og hjálpa liði mínu sem mest," sagði Kuyt og bætti við:

„Þetta gerir mig líka enn ákveðnari í að sanna mig, æfa vel og spila eins vel og ég get þegar ég fæ tækifærið," sagði þessi fyrrum leikmaður Feyenoord  sem hefur verið hjá Liverpool síðan 2006.

„Það er hörð samkeppni í liðinu sem er frábært fyrir klúbbinn. Það eru komnir margir klassaleikmenn til félagsins og það gera sér allir grein fyrir því að það þarf fleiri en ellefu góða leikmenn til að ná árangri," sagði Kuyt.

„Þegar ég kom hingað fyrst þá vorum við með stóran og góðan leikmannahóp en undanfarin tvö tímabiil höfum við ekki haft sömu breidd og fyrstu þrjú árin. Við erum með betra lið í dag og ættum því að hafa metnað og sjálfstraust til að ná árangri á þessu tímabili," sagði hollenski landsliðsmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×