Enski boltinn

Mertesacker: Bremen kom í veg fyrir að ég færi til Arsenal í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Per Mertesacker.
Per Mertesacker. Mynd/Nordic Photos/Getty
Þýski miðvörðurinn Per Mertesacker er strax orðinn fastamaður í Arsenal-vörninni en Arsene Wenger keypti hann frá Werder Bremen á lokadegi félagsskiptagluggans og hefur síðan teflt honum fram í öllum fimm leikjum liðsins.

„Ég vissi fyrst af þessu þremur dögum áður en glugginn lokaði. Ég var þá í góðum gír með Bremen, var fyrrliði liðsins og var bara að einbeita mér að því að spila fyrir Werder Bremen," sagði Per Mertesacker.

„Arsene Wenger hringdi þá í umboðsmanninn minn og sagði að ég gæti verið maður inn sem hann vantaði. Ég vissi að hann hafði áhuga á mér því hann reyndi líka að fá mig í fyrra en þá leyfði Klaus Allofs, framkvæmdastjóri Werder Bremen, mér ekki að fara," sagði Mertesacker.

Mertesacker, sem átti 27 ára afmæli á miðvikudaginn, segist hafa lengi viljað spila í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég var búin að óska mér það lengi að fá tækifæri til að spila í ensku deildinni og því var það ekki erfitt að taka þess ákvörðun. Þetta er mikil áskorun fyrir mig og eftir að fjölskyldan tók vel í þetta þá ákvað ég að stökkva á þetta," sagði Mertesacker.

Mertesacker fékk góð ráð frá Jens Lehmann en þeir léku á sínum tíma saman í þýska landsliðinu og þá talaði hann einnig við Mikael Silvestre, fyrrum leikmann Arsenal, sem lék með honum í fyrra. Framundan er stærsti leikur Per Mertesacker fyrir Arsenal þegar liðið sækir heim erkifjendur sína í Tottenham á White Hart Lane.

„Þetta er minn fyrsti stórleikur með Arsenal og margir hafa verið að segja mér hversu miklu máli hann skiptir félagið. Þetta er mjög mikilvægur leikur fyrir mig og Arsenal og verður ný reynsla fyrir mig því það er enginn sambærilegur leikur í Þýskalandi," sagði Mertesacker.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×