Íslenski boltinn

Umfjöllun: Jafntefli niðurstaðan í Vesturbænum

Stefán Árni Pálsson á KR-velli skrifar
Mynd/Anton
KR og Stjarnan gerðu 1-1 jafntefli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld, en leikurinn fór fram á KR-vellinum. Heimamenn voru yfir í hálfleik en gestirnir mættu grimmir til leiks í þeim síðari og náðu að jafna metin. Guðjón Baldvinsson gerði mark KR-inga í leiknum og Ellert Hreinsson skoraði mark gestanna.

Heimamenn fengu nokkur afbragðsfæri á upphafs mínútum leiksins og meðal annars skallaði Grétar Sigfinnur Sigurðarson boltann í þverslánna.

Eftir rúmlega tuttugu mínútna leik spiluðu KR-ingar sig í gegnum vörn Stjörnunnar meistaralega, en sóknin endaði á því að Viktor Bjarki Arnarson gaf fyrir á Guðjón Baldvinsson sem þurfti aðeins að leggja boltann í autt markið. 1-0 fyrir bikarmeisturunum og þannig var staðan í hálfleik.

Gestirnir mætti ákveðnir í síðari hálfleikinn og ætluðu greinilega að selja sig dýrt. Eftir aðeins sjö mínútna leik náðu gestirnir að jafna metin þegar Ellert Hreinsson skoraði fínt mark eftir frábært spil Stjörnumanna í gegnum vörn KR-inga. Garðar Jóhannsson sendi stungusendingu á hárréttum tíma inn á Ellert sem afgreiddi boltann snyrtilega í netið.

Leikurinn var virkilega jafn það sem eftir lifði af leiktímanum og bæði liðin áttu möguleika á því að stela sigrinum en ekki komu fleiri mörk í Vesturbænum og niðurstaðan því 1-1 jafntefli.

KR-ingar eru sem fyrr á topp deildarinnar með 34 stig, en Eyjamenn koma þar á eftir með 32 stig. KR-ingar mæta ÍBV í næstu umferð á fimmtudaginn.

KR 1 – 1 Stjarnan

1-0 Guðjón Baldvinsson (25.)

1-1 Ellert Hreinsson (52.)

Skot (á mark): 9 – 10 (3-5)

Varin skot: Hannes 4 – 1 Ingvar

Horn: 7 – 3

Aukaspyrnur fengnar: 12–5

Rangstöður: 3-2



Dómari: Erlendur Eiríksson 7



Hér fyrir neðan má síðan sjá textalýsingu frá blaðamanni Vísis á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×