Íslenski boltinn

Umfjöllun: Loksins sigur hjá Íslandsmeisturunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Fylkisvelli skrifar
Kári Ársælsson.
Kári Ársælsson. Mynd/Pjetur
Breiðablik vann 2-1 sigur á lánlausu liði Fylkis í Árbænum í kvöld. Var þetta fyrsti sigur Blika síðan 9. júlí í Pepsi-deild karla.

Ásgeir Örn Arnþórsson kom Fylki yfir strax á fyrstu mínútu og stóðu leikar þannig í hálfleik. Árni Vilhjálmsson og fyrirliðinn Kári Ársælsson skoruðu svo mörk Blika í síðari hálfleik.

Leikurinn var alls ekki sá besti í sumar og bar keim af því að þarna mættust lið sem hafa valdið stuðningsmönnum sínum vonbrigðum á tímabilinu.

Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis, neyddist til að gera margar breytingar á sínu liði - og þá fyrst og fremst vegna leikbanna og meiðsla. Í byrjunarliðinu var til að mynda hinn sextán ára gamli Hjörtur Hermannsson sem fékk það mikilvæga hlutverk að spila á miðjunni.

Nafni Ólafs og kollegi, Ólafur Kristjánsson, gerði tvær athyglisverðar breytingar á sínu liði. Fastamennirnir Ingvar Þór Kale og Kristinn Jónsson voru á bekknum og í þeirra stað voru þeir Sigmar Ingi Sigurðarson og Tómas Óli Garðarsson í byrjunarliðinu.

Það var ekki komin ein mínúta á vallarklukkuna þegar fyrsta markið kom. Bakvörðurinn Tómas Óli reyndi að skalla úr varnarlínu Blika en boltinn fór beint í Fylkismanninn Ásgeir Örn, sem átti þó eftir að gera heilmikið. Hann náði að láta Þórð Steinar snúast í hringi áður en hann skaut föstu skoti í nærhornið, fram hjá Sigmari Inga í markinu.

En þrátt fyrir þessa fjörugu byrjun var fyrri hálfleikur ekki upp á marga fiska. Blikar voru meira með boltann lengst af en gekk ekkert að komast að teig Fylkismanna fyrr en á síðasta stundarfjórðungnum. Þá náðu þeir sjaldan að angra Fjalar í marki heimamanna.

Fylkismenn voru heldur ekki að spila neitt sérstaklega vel en áttu þess í stað ágætar skyndisóknir. Besta færið fékk Kjartan Ágúst Breiðdal sem skaut fram hjá af stuttu færi. Fylkismenn vildu fá vítaspyrnu í sömu sókn eftir þar sem varnarmaður Blika mun hafa handleikið knöttinn.

Í hálfleik kom Rúrik Andri Þorfinsson inn á fyrir Fylki og við það færðist markaskorarinn Ásgeir Örn í bakvarðastöðuna. Rúrik var ekki lengi að koma sér í færi en hann nýtti sér sofandahátt í varnarleik Blika er hann komst einn gegn Sigmari markverði en skot hans hafnaði í hliðarnetinu.

Rúrik átti eftir að naga sig enn frekar í handbökin því á 55. mínútu voru Blikar búnir að jafna metin. Líklega var það Árni að verki með skalla en ekki er ólíklegt að Fylkismaður hafi komið við boltann á leiðinni í netið.

Fylkismenn hresstust mjög vel mótlætið og áttu sínar bestu rispur eftir jöfnunarmarkið. En það fjaraði undan þeim og Blikar komu sér betur inn í leikinn og sköpuðu sér æ hættulegri færi.

Það bar svo árangur þremur mínútum fyrir leikslok þegar að fyrirliðinn Kári Ársælsson skallaði boltann laglega í mark Fylkismanna eftir fyrirgjöf Jökuls Elísabetarsonar.

Fylkismenn mega vera ósáttir við að hafa misst forystuna í enn eina skiptið en Blikar eru sjálfsagt fegnir því að hafa loksins innbyrt sinn fyrsta sigur í síðustu sex deildarleikjum liðsins. Hvorugt lið spilaði þó glimrandi góða knattspyrnu í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×