Innlent

Guðmundur verður óháður þingmaður - rætt við fleiri þingmenn um úrsögn

Guðmundur Steingrímsson.
Guðmundur Steingrímsson.
Guðmundur Steingrímsson mun segja sig úr Framsóknarflokknum á morgun og sitja sem óháður þingmaður á Alþingi.

Samkvæmt heimildum Vísis hyggst Guðmundur einnig koma að stofnun nýs stjórnmálaafls sem hefur verið að gerjast í nokkra mánuði og samanstendur af Framsóknarmönnum sem hafa ýmist sagt sig úr flokknum eða finnast sem þeir hafa ekki átt samleið með flokknum, þá helst út af harðri andstöðu forystunnar við aðildarviðræður við ESB.

Vísir ræddi meðal annars við Hall Magnússon, sem sagði sig úr Framsóknarflokknum í desember á síðasta ári. Hann er meðal þeirra sem koma að þessu stjórnmálaafli sem hefur þó ekki verið stofnað formlega.

Hann sagði í samtali við Vísi að hann hefði ekki rætt við Guðmund um væntanlega úrsögn hans úr Framsóknarflokknum. Hann sagði þó félagsskapinn eiga margt sameiginlegt með áherslum Guðmundar og eiga það ennfremur sameiginlegt með honum að þeir finni sér ekki stað í Framsóknarflokknum eins og hann er orðinn í dag.

„Það er orðin ísköld staðreynd að fólk innan Framsóknarflokksins er búið að gefast upp á því hvert flokkurinn stefnir," sagði Hallur en nokkrar væringar hafa verið innan flokksins síðustu daga, meðal annars þungavigtarmenn úr félagsstarfi flokksins sagt sig úr honum.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vísis hefur verið komið að máli við fleiri þingmenn Framsóknarflokksins og þeim boðið að taka þátt í stofnun hins nýja stjórnmálaafls. Þeir munu vera að hugsa sinn gang en ekkert sé ákveðið í þeim efnum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í samtali við fréttastofu að hann hefði fyrst heyrt af áætlunum Guðmundar í fjölmiðlum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×