Íslenski boltinn

Kári: Þrjú stór stig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári Ársælsson í leik með Breiðabliki.
Kári Ársælsson í leik með Breiðabliki. Mynd/Daníel
Kári Ársælsson var hetja Breiðabliks en hann tryggði sínum mönnum 2-1 sigur á Fylki í Árbænum í kvöld.

„Sigurmark með skalla á 87. mínútu. Það er gaman að við skyldum ná að skora í lokin og mjög kærkomið,“ sagði Kári eftir leikinn í kvöld.

„Mér fannst við eiga nokkuð inni. Við fengum ekki góða byrjun en vorum þolinmóðir og unnum okkur inn í hann hægt og rólega.“

„Við áttum aukaorku undir lok leiksins en mér fannst við stjórna leiknum lengst af. Þeir voru mikið í að kýla boltanum fram og það var ekki erfitt að verjast því. En þetta er þolinmæðisvinna og það var ekki auðvelt að brjóta þá á bak aftur.“

Þetta var fyrsti sigur Breiðabliks í deildinni síðan 9. júlí og Kára var létt.

„Já, þetta er mikill léttir eins og alltaf þegar illa gengur. Við unnum deildina í fyrra en erum ansi langt frá toppinum núna. Það hefur verið mikið gert úr því. Þetta voru þrjú stór stig þar sem þau hafa verið svo fá hjá okkur.“

Bæði lið eru nú með nítján stig í deildinni. „Ef deildin hefði spilast eðlilega værum við í bullandi fallbaráttu,“ bætti Kári við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×